miðvikudagur, desember 08, 2004

Så’ Det Jul

Rak augun í auglýsingu framan á Fréttablaðinu í morgun:

JÓLALEST COCA-COLA KEMUR EFTIR 3 DAGA!

Eins og flestir vita er þetta vörubílalestin sem keyrir um með kók fyrir jólin. Fyrst í stað lét þessi guðsvolaða lest sér nægja að keyra um í sjónvarpsauglýsingum undir dynjandi tónum lagsins frábæra "Holidays are coming! Holidays are coming! Holidays are coming! Coca-Cola is coming to town!" en færði sig síðan upp á skaftið og þvælist nú um götur Reykjavíkur í erindaleysu einu sinni á ári, sjálfum sér til skammar og öðrum til ama.

Fyrir nokkrum árum síðan var ég staddur heima hjá Palla á Suðurgötunni um þetta leyti árs. Við höfum líklega verið að fylgjast með leikmönnum Liverpool sýna einhverjum minni spámönnum hvar Davíð keypti ölið á sjónvarpsskjánum, og þegar því var lokið ákvað ég að halda heim á leið. Ég skrölti mér því út í bíl og þar sem ég var að búa mig undir að bakka út úr stæðinu fyrir framan húsið keyrðu þrír bílar úr téðri Coca-Cola lest framhjá, í sömu átt og ég var að fara, og einkennislagið þeirra hljómaði hátt og skýrt úr um gluggana. Ég hef eflaust hugsað með mér: "fífl" eða "asnar" eða eitthvað álíka jólalegt en gaf þessu ekki frekari gaum og renndi mér út úr stæðinu í humátt eftir kókbílunum. Vissi ég svo ekki fyrr til en fyrir aftan mig birtist annar af þessum blessuðum kókbílum, og annar þar fyrir aftan, og annar, og annar, og annar.........og mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar það rann upp fyrir mér að ég var staddur í miðri Jólalest Coca-Cola, á Mözdu 323, árgerð ´87. Í u.þ.b. tvær mínútur leið mér eins og ég væri lentur inni í þessari blessuðu auglýsingu þeirra, og það var vægast sagt óþægileg tilfinning, nánast súrrealísk í fáránleika sínum. Lagið hljómaði í eyrunum á mér, birtan af jólaljósunum stakk í augun, ég kófsvitnaði og ég gat ekkert hugsað annað en: "út! út! ég verð að komast út!!!" Sem betur fór var hringtorg ekki langt undan og þar náði ég að bjarga mér út úr lestinni á flótta. Ég lagði bílnum í næsta stæði, kveikti mér í sígarettu og beið eftir að skjálftakippirnir liðu úr líkamanum. Dreif mig svo heim og reyndi mitt besta til að gleyma þessari hörmulegu lífsreynslu. Það tókst ekki. Eftir þetta hefur mér alltaf verið meinilla við jólin.

Af því tilefni er gráupplagt að birta hér lista yfir leiðinlegustu jólalög allra tíma:

Topp 5 - Leiðinlegustu jólalög allra tíma:

1. U2 - Christmas (Baby Please Come Home)
2. Nat King Cole - The Christmas Song (Chestnuts Roasting on an Open Fire...)
3. Bruce Springsteen - Santa Claus is Coming to Town
4. Á Móti Sól - Þegar Jólin Koma
5. Larry Chance - Jingle Bell Rock

Einhverjir furða sig eflaust á fjarveru Jólahjóls á þessum lista. Málið er að Jólahjól er eiginlega meira útnauðgað og pirrandi lag en verulega slæmt lag eins og þau á listanum eru. Einnig var afar freistandi að skella nýja jólalaginu hans Bigitalus, a.k.a. Bigga í Maus, á listann en þar sem ég hef ekki enn heyrt lagið ákvað ég að láta það vera. Ég efast þó ekki um að þar er um tímamótaverk að ræða.

Fór á Seed of Chucky í gær og var spenntur - hef enda alltaf fílað Chucky en missti reyndar af síðustu mynd, The Bride of Chucky. Ætlaði mér alltaf að leigja hana en gafst ekki tími til þess. Það hefur greinilega haft sín áhrif. Við gáfumst upp eftir klukkutíma og löbbuðum út. Svona eru jólin.

mánudagur, desember 06, 2004

Stranglers in the Night

- Stranglers voru fínir. Kom mér reyndar á óvart að Billy Idol væri farinn að syngja með þeim en það kom ekki að sök, a.m.k. ekki í fyrstu 5 eða 6 lögunum því þá heyrðist ekki múkk í blessuðum manninum. Þeir tóku samt ekki Nice´n´Sleazy. Það var slæmt.

- Pubquiz var lagt á föstudagskvöldið, að þessu sinni með Ölla mér við hlið. Kassanum voru gerð góð skil.

- Horfði á Jaws í fyrsta skipti í gærkvöldi. Bölvað vesen á þessum ókindum alltaf hreint.

- Í kvöld ætla ég svo að hafa fretpasta í kvöldmatinn. Ég hlakka til.