mánudagur, febrúar 28, 2005

Að vaska upp er góð skemmtun...

Þ.e.a.s. ef maður er í þeirri aðstöðu að geta hlustað á skemmtilega tónlist á meðan maður vaskar upp - annars er það fjandanum leiðinlegra. Þess vegna kemur það sér mjög illa að nánast allar útvarpsstöðvar á Íslandi bjóða upp á fátt annað en úldmeti daginn út og inn. Ég gerði litla tilraun meðan ég vaskaði upp á föstudaginn. Tilraunin gekk út á að athuga hversu mörg lög í röð ég gæti hlustað á áður en ég neyddist til að skipta um stöð. Skemmst er frá því að segja að sigurvegararnir voru tveir - jafntefli varð milli Útvarps Latabæjar og Létt 96,7 með 3 lög á kjaft. Lögin voru þessi:

Útvarp Latibær:

1. Stjórnin - Láttu Þér Líða Vel
2. Ómar Ragnarsson - Ligga Ligga Lá
3. Stjórnin - Sumarlag

Þegar "Hjólin í Strætó segja ding-ding-ding" byrjaði að hljóma gat ég ekki meir og skipti yfir á:

Létt 96,7:

1. Richard Marx - Right Here Waiting
2. Glen Medeiros - Nothing´s Gonna Change My Love For You
3. James Taylor - You´ve Got a Friend

Ég þraukaði í gegnum James Taylor en þegar viðurstyggileg söngrödd Joss Stone tók að ergja tóneyrað mitt slökkti ég á útvarpinu enda uppvaskinu lokið. Þess má geta að fyrsta lagið sem ég lenti á á Rás 2 var með Mugison og þar með var þátttöku þeirrar ágætu stöðvar í tilraunininni í raun lokið áður en hún hófst. Ég hef trú á því að Rás 2 hefði getað staðið sig betur á góðum degi - en hversu lengi þarf maður að hafa kveikt á Rás 2 áður en maður heyrir Mugison? Örugglega ekki lengi. Hvert var ég annars að fara með þessum skrifum? Það má Þorgeir Ástvaldsson vita.