miðvikudagur, september 21, 2005


Ulýsingar

Síðustu vikur hafa öðrum fremur tvær sjónvarpsauglýsingar vakið athygli mína - önnur fyrir að vera afar fyndin og skemmtileg en hin fyrir að vera afspyrnu ófyndin og leiðinleg. Nú er það þannig með mig að ég tek nánast aldrei eftir því hvað verið er að auglýsa í sjónvarpsauglýsingum, fatta ekki hvaða fyrirtæki á í hlut og gleymi jafnóðum þeim tilboðum sem verið er að kynna. Ég er þó nokkuð sjúr á því að í skemmtilegu auglýsingunni er verið að auglýsa eitthvað tengt Símanum eða OgVodafone. Þar stendur ung stelpa og talar hratt í gemsann sinn - eitthvað á þessa leið: "...og svo sagði hann að ég væri alltaf að rífast við bræður mína, og ég bara "bræður mína? Þetta eru sko eiginlega systur mínar eða eitthvað, skilurðu?" og hann bara "ræt", og ég bara......." og þar fram eftir götunum. Þetta finnst mér mjög góð auglýsing og á það til að flissa aulalega þegar hún birtist á skjánum. Einnig er verið að sýna mjög svipaða auglýsingu þar sem strákur er að tala í símann og hún er líka alveg ágæt. (Strákurinn í þeirri auglýsingu ætlaði reyndar að berja mig og Ölla einhverntíma í fyrndinni, minnir að ástæðan hafi verið að við hefðum kallað hann Sverri í staðinn fyrir Stefán. Ég er ekkert að erfa þetta við hann, bæði er langt síðan þetta var og svo veit ég sjálfur af eigin raun hversu pirrandi það getur verið að vera kallaður öðru nafni en sínu eigin, en sú saga - af litlu stelpunni sem elti mig á röndum og kallaði mig Bóbó þegar ég var táningur, verður að bíða betri tíma.) Hinsvegar finnst mér þessar KB Banka Cambridge auglýsingar með Þorsteini Guðmundssyni ferlega slappar. "Gúddí, búddí búddí! Aaaaa búddí búddí!." Ekki alveg að gera það fyrir mig, og ekki bætir úr skák að þessi auglýsing er sýnd ca. 63 sinnum á dag. Þorsteinn getur hæglega verið gríðarlega fyndinn eins og Amma Fífí hér að ofan sýnir, en það er ekki þar með sagt að allt sem hann gerir sé æðislega frábært. Mér finnst stundum eins og fólk taki andköf af hlátri yfir hverri einustu setningu sem maðurinn lætur út úr sér, hvort sem hún er fyndin eður ei, og það hlýtur auðvitað að hafa þau áhrif að Þorsteinn hætti að leggja sig fram og vanda sig og verði smám saman ófyndinn. Það er alltaf leiðinlegt þegar grínistar fá þá flugu í hausinn að þeir séu æði og allt sem þeir geri sé frábært. Mér sýnist Þorsteinn vera kominn í þann gírinn. Ég hugsa að það gæti verið graður leikur fyrir hann að taka sér smá pásu og hugsa málið, og koma svo tvíefldur til baka. En fyrst verður að taka þessa helvítis Gúddí búddí auglýsingu úr umferð. Ég fæ appelsínuhúð ef ég sé hana einu sinni enn.
Litografi fra 1910

Krúttíbollan Himmler var svo góður að kenna mér að setja myndir inn á bloggið. Þetta þýðir aðeins eitt: Hér eftir verða myndir á blogginu! Góða skemmtun.