fimmtudagur, september 29, 2005

Ákvarðanir dagsins

Ákvað að reyna mig við Sudoko þraut dagsins í Fréttablaðinu. Ákvað tveimur mínútum síðar að gefast upp á Sudoko þraut dagsins í Fréttablaðinu. Ákvað svo að reyna mig aldrei framar við neina helvítis Sudoko þraut í neinu andskotans blaði.

þriðjudagur, september 27, 2005

Bubba

Notendur spjalltorgsins á bubbi.is eru felmtri slegnir. Það lítur út fyrir að Bubbi hafi verið í viðtali hjá Íbba Gumm á Bylgjunni um daginn en Íbbi kallinn hafi ekkert verið að ómaka sig við að auglýsa viðtalið neitt fyrirfram og þ.a.l. hafi flestir þessara eitilhörðu Bubbaaðdáenda á spjalltorginu misst af þessu. Það er kurr í mönnum en Bubbi hefur svör á reiðum höndum eins og endranær:

ok þetta á bylgjuni var bara þannig að ég var með gítarin útí bíl var að tala við einhvern útaf ædol þegar ívar spurði mig hvort ég væri til í viðtal og ég sagði já var að fara norður keyrandi og tók gítarin og ákvað að spila eingin vissi um það nema ég ok

Ok Bubba. Þetta hlaut að eiga sér eðlilegar skýringar.

sunnudagur, september 25, 2005

Bubbli

Var að horfa út um stofugluggann heima hjá mér um daginn og varð starsýnt á þrekinn og sköllóttann mann sem var að skúra gólf í einum glugganum í húsi skammt frá. Með góðum vilja gat ég ímyndað mér að þetta væri Bubbi að skúra gólfið. Ég heillaðist gjörsamlega og gat ekki slitið augun af honum í nokkrar mínútur. Eitthvað undarlega dáleiðandi við þessa sjón - Bubbi að skúra.