mánudagur, janúar 01, 2007



WTF?!? p. 1

Halló halló og gleðilegt ár elskurnar mínar.

Er ekki gráupplagt, svona á fyrsta degi ársins, að byrja með nýjan fastan lið á Frívaktinni? Jú, það finnst mér.

Þessi nýi liður ber nafnið WTF?!? og virkar í stuttu máli svona:

Eins og allir sem þekkja mig vita ef ég fremur treggáfaður. Ég er alltaf að lenda í því að heyra einhverja popptexta og raula þá með sjálfum mér, jafnvel í áraraðir, og uppgötva svo að ég skil hvorki upp né niður í því sem verið er að segja í textunum. Tilgangurinn með þessum nýja lið er sumsé sá að fá einhverskonar vísbendingu um það hvort ég sé í rauninni svona ofboðslega fattlaus eða hvort í þessum textum leynist stundum einhver bölvuð þvæla. Ég hallast að hinu fyrrnefnda en það verður gaman að fá úr þessu skorið og hvet ég lesendur eindregið til að láta til sín taka í kommentakerfinu:

P. 1 Live - All Over You

Eins og glöggir lesendur hafa vafalítið löngu áttað sig á er Live ein af verstu hljómsveitum mannkynssögunnar. Óglöggir lesendur sitja væntanlega heima hjá sér á Selfossi, berir að ofan og rasssveittir, og raula með "When the Dolphins Cry" meðan að fitan lekur úr hárinu á þeim og eyðileggur lyklaborðið á PC tölvunni þeirra, en gott og vel. Eftirfarandi textabrot er tekið úr upphafi lagsins "All Over You" með Live. Ég hef heyrt þetta lag milljón sinnum en aldrei spékúlerað sérstaklega í textanum fyrr en fyrir nokkrum dögum síðan, og ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert um hvað maðurinn er að tala:

"Our love is like water
Pinned down and abused
For being strange"


Hmmmm? Eru til menn sem leggja það í vana sinn að misþyrma vatni fyrir að vera skrýtið? Eða er vatnið myndlíking fyrir sálarlíf ynnri manns höfundar? Eða er tíminn eins og vatnið, alltaf á sama stað en þó sífellt að ferðast? Mér er spurn. Gaman væri að heyra pælingar og tillögur lesenda.

Engin ummæli: