fimmtudagur, desember 21, 2006


Jólajól

Ég er kominn til Íslands, jólin nálgast óðfluga og því ekki seinna vænna að gerast jákvæður, hress, fullur af náungakærleik og, umfram allt annað, að SMELLA SÉR Í GOTT JÓLASKAP! Nokkrir punktar:

Ég skellti mér á Radíuskvöld í gær. Radíusbræður voru dálítið ryðgaðir eins og við mátti búast en ekki alslæmir, og mikið var ég sammála Steini Ármanni þegar hann talaði um Baggalút og þessi viðrinis jólalög þeirra. Mikið svakalega finnst mér þetta leiðinlegt og ófyndið helvíti. Hverjum finnst þessir Baggalútsgæjar sniðugir? Og hverjir eru að kaupa þessar plötur þeirra? Mér er spurn.

Heyrði lag með Bríeti Sunnu í útvarpinu í dag. Það var mikil lífsreynsla. Ekki einasta er hún Bríet blessunin með hálf ónýta söngrödd heldur var texti lagsins algjörlega sér á parti. Ég man ekki textann í smáatriðum en tvær setningar stóðu upp úr, eitthvað á þessa leið:

a) "Ég er flutt út úr íbúðinni í Keflavík og búin að finna mér nýjan stað."

og

b) "Mamma sagði mér að ég ætti að hætta að hugsa um þig, Erla sagði að þetta myndi líða hjá."

Dýrt kveðið.

Þegar ég hugsa um leiðinlegar íslenskar hljómsveitir hefur Nýdönsk verið mér efst í huga í áraraðir. Lengi vel hef ég ekki getað ímyndað mér að til væri verri íslensk grúppa, en nú eru teikn á lofti. Hljómsveitin Ampop er ansi líkleg til að velta Nýdönsk úr sessi á næstu mánuðum eða árum, svo leiðinleg er hún. Fylgist spennt með framvindu þessa máls hér á Frívaktinni.

Ég óska hundtryggum og þolinmóðum lesendum mínum gleðilegra jólahjóla.

fimmtudagur, desember 14, 2006

Ég er búinn að hlusta á Janie Jones með Clash í allan dag, sirka 56 sinnum, og hungar í meira. Oftast í flutningi Clash en líka stundum koverútgáfuna með Babyshambles. Pete og félagar gera þessu lagi bara djöfull góð skil finnst mér, enda kannski þrautinni þyngra að klúðra svona dúndri. Og þó, einhverjum hefði líklega tekist það...t.d. Bigga í Maus.

þriðjudagur, desember 05, 2006


Bassahommi

Ekkert serstakt svosem, mer fannst tetta bara fyndid.

sunnudagur, desember 03, 2006

Hver segir svo ad taer Alma, Emilía, Steinunn Camilla og Klara
seu ekki ad gera tad gott i utlandinu?


Nylon
P.O. Box 39
Liverpool
L17 8FX

mánudagur, nóvember 20, 2006

Dulítið seint á ferðinni, en hér er gott fótboltagrín með Ricky Gervais og co (ég kann ekki ennþá að gera link á makkanum þannig að það verður að koppípeista):

http://www.youtube.com/watch?v=M3ABbTWrskM&search=Stephen%20Merchant%20Comedy%20Soccer%20Football

laugardagur, nóvember 18, 2006

Eitthvað gott um þessar mundir:

Góð plata: Alright Still með Lily Allen (ég veit, ég er h....).
Góð bók: Lára gaf mér ævisögu Ricky Gervais í afmælisgjöf og hún er barasta skrambi skemmtileg.
Góð bíómynd: Það eina sem ég hef séð í bíó síðasta hálfa árið er Borat og hún er frussandi funny á köflum.
Góð fjárfesting: Look Around You sería 2 á DVD. Fyndnara verður það varla.
Góður matur: Allur þessi fitugi og óholli enski matur finnst mér hrikalega góður. Og ostarnir maður...
Góð hugmynd: Ég er stöðugt að fá einhverja netta hugara sem ég gleymi jafn óðum. Það væri líklega góð hugmynd að borða minna en pakka á dag af beef jerky. Eflaust baneitraður andskoti, en ljúffengur.
Gott gos: Cherry kók og Old Jamaica Ginger Beer
Góð skemmtun: Að horfa á myndband.
Góð ákvörðun: Að láta ekki gengi Liverpool á útivöllum hafa of mikil áhrif á geðheilsuna. Sérlega mikilvægt á þessum síðustu og verstu.
Gott markmið: Að losna við velmegunarbumbuna. Það er líklega óskhyggja - þegar búið er að skapa svona óskapnaði vaxtarskilyrði verður ekki aftur snúið. Ég vildi bara óska þess að ég fitnaði líka annars staðar á líkamanum, ekki eingöngu á maganum.

miðvikudagur, nóvember 15, 2006


Hér í Tjalllandi fást ýmsar tegundir af poppkorni. Ég hef ekki séð ostapopp ennþá en Toffee popp er gríðarlega ljúffengt. Í gær keypti ég mér eitthvað sem nefnist Cinema sweet popp og var ekki hrifinn en bind miklar vonir við Honey mustard poppið sem ég ætla að prófa fljótlega.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Ævisaga mín (frh.)

Við tóku menntaskólaárin. Á háskólaárunum sá ég þennan brandara í sjónvarpinu: Q: Fyrir hvað stendur skammstöfunin Hi-Fi? A: High Figh. Endir.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006


Ég var á kaffihúsi áðan og hver skyldi koma röltandi inn annar en Mark Addy sem margir gætu munað eftir úr The Full Monty. Svo spottaði ég líka Hödda Magg fyrir utan Anfield um daginn. Það er hreinlega ekki þverfótandi fyrir stórstjörnum hérna.

miðvikudagur, nóvember 08, 2006


Halló. Ég er þrítugur í dag. Af því tilefni hef ég ákveðið að skrifa ævisögu mína í bloggfærsluformi.

1. kafli

Æskuminningar

Ég man ekki eftir því að hafa fæðst, en dreg þó ekki í efa að sá atburður hafi átt sér stað. Ég man heldur ekki eftir því að hafa byrjað í Austurbæjarskólanum, en þaðan útskrifaðist ég árið 1992 með fjöldann allan af viðurkenningum í farteskinu. M.a. fyrir afburða leikni í borðtennis og yfirgripsmikla stærðfræðikunnáttu.

(meira síðar).

miðvikudagur, október 11, 2006


Jó! Helvíti mikið að gera, ítarlegt blogg á leiðinni en þangað til set ég hérna inn mynd af sætustu skvísunni í Liverpool.

mánudagur, september 18, 2006


Take me back to dear old Blighty

Well, við erum rokin til Lifrarpolls. Þurfum að vísu að eyða einni nótt í ræpupleisinu Manchester fyrst en það ætti að sleppa ef við höldum bara nægilega þétt fyrir nefið til að finna ekki þennan megna skítafnyk sem umlykur Old Trafford og næsta nágrenni. Svo var Robbie Fowler búinn að lofa því að taka á móti okkur í Liverpool á þriðjudaginn. Hver veit nema maður bjóði honum upp á einn bjór á Cavern klúbbnum fyrir viðvikið. Vona samt að hann fari ekki að draga Paul McCartney með sér því hann er víst svo leiðinlegur með víni. Heyrumst.

fimmtudagur, september 07, 2006





Það lítur út fyrir að handritshöfundar áströlsku sápuóperunnar Nágranna hafi ekki einungis óvenju næmt auga fyrir æsandi rómantík, magnþrunginni spennu og mannlegum harmleikjum heldur virðast þeir hafa afburða góðan tónlistarsmekk í ofanálag. Þáttur dagsins í dag ber t.d. nafnið Tangled Up in Roo, þáttur morgundagsins heitir Shelter from the Storm, svo kemur Tombstone Blues, Blood on the Max?, The Wicked Messenger, Hey Mr. Tambourine Sham, Licence to Swill, You're a Big Boy Now, Blonde on Blind og fleiri og fleiri titlar sem rekja má til Bobba Dælans. Aldrei hafði ég gert mér grein fyrir því hversu Nágrannar og Dælan bindast órjúfanlegum böndum.

Annars bind ég miklar vonir við að Bobby haldi tónleika einhversstaðar í Englandi í vetur. Hann er ein af fáum gömlum hetjum sem ég á eftir að sjá á sviði. Ég ætla að reyna eins og ég get að komast á Madness og Pogues sem eru að spila í vetur og vonandi spilar Morrissey eitthvað í Englandi líka. Ef ég væri væri moldríkur siðleysingi myndi ég ráða Morrissey til að búa heima hjá mér og taka óskalög þegar mér hugnaðist svo. Eða ræna honum og skipa honum að syngja fyrir lífi sínu. Að lífið sé einn langur Morrissey konsert - það er draumurinn.

Ég á erfitt með að mynda mér ákveðna skoðun á Dave Navarro í Rockstar:Supernova. Ég á það til að digga hann en þeim stundum hefur fjölgað upp á síðkastið sem mig langar bara til að berja hann. Eitt er þó víst: perralegri einstaklingur finnst ekki á þessari jarðkringlu. Hann fær plús fyrir það.

Að endingu vil ég koma þeirri skoðun minni á framfæri að lagið Just Like Jesse James með Cher er að öllum líkindum besta lag heims.

Mikið er gott að lofta aðeins út tilgangslausu blaðri og vitleysu öðru hvoru. Ahhhh....

laugardagur, september 02, 2006

fimmtudagur, ágúst 31, 2006




Jæja, eftir að hafa eytt lööööööngum tíma í símanum við að reyna að ná í gegn í miðasöluna á Anfield tókst mér loksins að bóka miða á Liverpool - Newcastle leikinn þ. 20 sept. Ég pantaði miða í Centenary stúkuna (sjá mynd), hef farið tvisvar áður á Anfield og sat þá í fyrst í Anfield Road stúkunni og svo í Main Stand stúkunni þannig að eftir Newcastle leikinn mun ég einungis eiga eftir að prófa Kop stúkuna margfrægu - en það hlýtur að koma að því fyrr en seinna. Fyrir þá sem ekki vita erum við fjölskyldan að fara að flytja til Liverpool þ. 18 sept og verðum í eitt ár, ég í mastersnámi í Háskólanum í Liverpool og Lára verður í fjarnámi í HÍ. Liverpool er, eins og allir vita, þekkt sem "París Bretlandseyja" og því verður þetta án efa stuð, og jafnvel fjör líka.

miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Heyrðu já - Árni Johnsen fékk uppreist æru. Frábært. Öldungis frábært alveg hreint. Yndislegt.

Það er líklega best að vera með skopskynið í lagi til að geta hlegið að þessari andskotans vitleysu.
Rock Star Supernova raunveruleikaþátturinn í gær var súúúakalegur! Hápunkturinn var klárlega þegar Dilana lá uppi í rúmi með Storm og grenjaði. Simpsons aðdáendur í hópi áhorfenda hafa eflaust kveikt á því sama og ég: Dilana grætur nákvæmlega eins og tvíburasysturnar Patty og Selma. Svo sér maður hvað gerist í kvöld - ég er a.m.k. búinn að leggja mitt af mörkum með því að kjósa Magna ca. 50 sinnum (breytti klukkunni á tölvunni minni í Honolulu tíma). Ef allt fer á versta veg þá er hann Magni minn allavega búinn að sjá höfundum áramótaskaupsins fyrir nægu efni fyrir 7 skaup. Ég er strax farinn að hlakka til að sjá Björgvin Franz með gerviskallann og gervihökutoppinn. Ég er líka handviss um að textarnir sem hann kemur til með að syngja verða óborganlega sniðugir. Er þetta tilgangslausasta bloggfærsla sem ég hef skrifað? Ég held það barasta.

mánudagur, ágúst 28, 2006


Make the garden famous!

Þetta kallar maður að gera garðinn frægan. Tékkið á stjörnunum sem eiga verk eftir Arnór Bílveltu.

föstudagur, ágúst 25, 2006


Við erum að fara í sumarbústað um helgina. Lára var áðan að velta því fyrir sér hvort við þyrftum að taka sængurver með okkur. Ég hef meiri áhyggjur af því hvort óhætt sé að að leggja upp í ferðina án þess að taka Magnús Ver með okkur.

mánudagur, ágúst 21, 2006


Hnekk is Bekk!

Hann Hnakkus byrjaði víst að blogga aftur fyrir mörgum mánuðum síðan en ég var bara að fatta það núna í dag. Það var svosem í lagi því ég fékk nokkurra mánaða skammt af Hnakkusi beint í æð í stuttum tíma og um mig fór gamli vellíðunarstraumurinn sem ég var farinn að sakna svo mjög. Að sjálfsögðu er hvert einasta orð sem meistarinn lætur út úr sér merkilegra en nokkurt guðsorð en ég ætla samt að leyfa mér að mæla sérstaklega með eftirfarandi pistlum:

Draugagangur á Morgunblaðinu

Kvikmyndagagnrýni um nýjustu mynd Tom Cruise

og

Hörkutól úr Árbænum

Hnakkus er sannleikurinn og Hnakkus er samviskan. Ekki streitast á móti - fallið ljúflega í mjúkan, en þó ákveðinn faðm Hnakkusar og ykkur verður borgið.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Nú virðist allt stefna í það að hollenski framherjinn Dirk Kuyt gangi til liðs við Liverpool. Ef það gengur eftir mun framlína Liverpool líta nokkurn veginn svona út:

Dirk Kuyt


Craig Bellamy


Robbie Fowler


Peter Crouch


Þetta hlýtur barasta að vera einhver ófríðasta framlína í heiminum í dag, jafnvel ljótasta framlína allra tíma. Það segir sína sögu þegar Robbie kallinn Fowler á séns í titilinn "myndarlegasti framherjinn". Ekki það að ég sé að kvarta, þetta er nákvæmlega eins og ég vil hafa það. Getur einhver bent mér á fallegan fótboltamann sem getur eitthvað? Fyrir utan Janus Guðlaugsson auðvitað?

sunnudagur, júlí 30, 2006


Ég hef aldrei hlustað neitt af viti á Sigur Rós, hef í mesta lagi heyrt einstaka brot úr lögunum þeirra í útvarpinu og einhverjum bíómyndum og ekki þótt mikið til þess koma. Hef löngum haft á tilfinningunni að tónlistin þeirra sé tilgerðarleg, ofmetin og fyrst og fremst leiðinleg, án þess þó að hafa nokkuð fyrir mér í þeim efnum. En svo horfði ég á tónleikana þeirra á Klambratúni í beinni útsendingu í sjónvarpinu í kvöld og viti menn! Álit mitt á Sigur Rós hefur breyst til mikilla muna. Þeir eru miklu verri en ég hélt.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Morrissey bókin sem ég pantaði er ekki ennþá komin. Þessa dagana tekur það mig ca. 4 ár að lesa eina bók þannig að ég ætla rétt að vona að þeir hjá Amazon fari að spýta í lófana. Og þó ekki - ég vil helst ekki að bókin verði öll út í slefi þegar hún kemur loksins.
Komiði sæl.

Tvö góð lög sem byrja á orðunum "More Than":

Bryan Ferry - More Than This

og

Bee Gees - More Than a Woman


Eitt leiðinlegt lag sem byrjar á orðunum "More Than":

Extreme - More Than Words


Þá er ekki fleira í þættinum að sinni, veriði sæl.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Af Vísi.is:

Það verður mikið um að vera fyrir fjölskyldufólk um helgina í Eden. Trúðurinn Eddi hefur heldur betur slegið í gegn, og hefur nú samið dans- og söngatriði í samstarfi við risa Amazon páfagaukaparið. Einnig er aldrei að vita nema Orkuveitu risarækjurnar og kanínurnar slái á létta strengi.

Ef það er eitthvað sem mig langar meira til að gera í heiminum en að sjá trúðinn Edda troða upp þá er það einmitt að sjá hann troða upp með risa Amazon páfagaukaparinu. Ég er hinsvegar ekkert svo spenntur fyrir Orkuveitu risarækjunum og kanínunum. Þær eru voðalega last year.

þriðjudagur, júlí 18, 2006

Var að horfa á einhvern nýjan þátt á Skjá Einum, Love Monkey, um mann sem vinnur hjá plötufyrirtæki í New York. Þetta er skrýtinn þáttur og margar tilfinningar sem bærast innra með mér við áhorfið. Þátturinn var svo hallærislegur á köflum að ég svitnaði en það var samt svona þægilegur bjánahrollur. Þegar við bætist pirringurinn út í aðalleikarann (gæinn sem lék Ed í samnefndum þáttum á RÚV, less than entertaining leikari), ánægjan með að sjá Jason Priestley aftur, miðaldra og krumpaðan og ýmislegt í söguþræðinum sem fullnægði tónlistarnördatilhneigingum mínum er komin skringileg blanda sem höfðar til mín á undarlegan hátt. Ég yrði samt ekki hissa þótt þátturinn höfði ekki til neins annars. En ég er ekki hættur með Skjá Einn í kvöld. Næst á dagskrá: Rock Star Supernova! Ég hef ennþá tröllatrú á Magna hinum magnaða. Það væri gaman ef hann hætti þessu "útjöskuðustu smellir ársins 1965" þema í lagavalinu, það þreytist fljótt. Aftur á móti (sól) vil ég alls ekki að hann snúi sér í staðinn að þessum Pearl Jam, Creed, Alice in Chains, Stone Temple Pilots bla bla bla viðbjóði sem menn virðast vera voðalega fastir í þarna fyrir vestan. Líklega er allt skárra en það. Mest væri ég til í að heyra hann taka eitthvað gott lag með Prefab Sprout. Nú eða Aztec Camera.

2 Morrissey miðar komnir í hús, og í tilefni þess pantaði ég mér bókina Saint Morrissey á Amazon (koverið á bókinni er einkar athyglisvert eins og hér sést). Maður getur auðvitað ekki sleppt því að sjá þennan höfuðsnilling þegar hann loksins lætur sjá sig hérna, en þetta verður þá í þriðja skipti sem ég sé gamla grána á tónleikum. Hmmm, ætti ég að myndast við að gera topp 5 lista yfir uppáhalds Smiths lögin mín? Jú....hví ekki? Fjandinn hafi það - skellum okkur í málið! Er það ekki? Jú:

Topp 5 - Uppáhalds Smiths lögin mín:

1. There is a Light That Never Goes Out
2. Frankly Mr. Shankly
3. That Joke isn´t Funny Anymore
4. Paint a Vulgar Picture
5. Girlfriend in a Coma

Úff, þetta var erfitt. En ég reyni þó. Ég hlakka til. Morri er maðurinn.

föstudagur, júlí 14, 2006


Helsti ókosturinn við að vinna í auglýsingabransanum er sá að þegar það vantar módel í auglýsingar er ósjaldan leitað til starfsmanna stofunnar.
Hrafnhildur Kjartansdóttir nývöknuð á fimm mánaða afmælisdeginum sínum.

sunnudagur, júlí 09, 2006


Ég er hættur, farinn - ég nenni ekki að vera svona SKÖLLÓTTUR FÁVITAAUMINGI!

Jæja, ekki það að mér hafi ekki verið skítsama hvernig þessi blessaði úrslitaleikur færi fyrirfram en eftir því sem leið á leikinn gerði ég mér grein fyrir því að Zidane og félagar mættu bara alls ekki vinna þetta, þannig að: Til hamingju Skítalía. Zidane er hættur að spila og það eina sem mér dettur í hug að segja um hann er: GOOD FUCKING RIDDANCE! FARIÐ HEFUR FÉ BETRA!!! Ég hef aldrei þolað þennan náunga og hef sjaldan fagnað meira en þegar hann fékk rauða spjaldið og varð sjálfum sér og þjóð sinni til skammar í síðasta leik sínum fyrir landsliðið og það á sjálfum úrslitaleik HM. Hafið þið vitað annan eins vanvita? FARÐU!! BLESS!!!! EKKI MUN ÉG SAKNA ÞÍN RÆFILL!!!!!

(Rosalega er mikið af hástöfum og upphrópunarmerkjum í þessu bloggi. En tilefnið hefur sjaldan verið betra).

miðvikudagur, júlí 05, 2006


Ég mæli alls ekki með því að dreyma Jón Pál heitinn dansandi strippdans eins og ég gerði í nótt. Það er truflandi á svo margan hátt.
Hvílíkt og annað eins hörmungar HM sem þetta ætlar að verða! 3 lið eftir og hvert öðru leiðinlegra og asnalegra, full af olíubornum vælukjóum og pervertum. Það er fínt að þetta sé að verða búið - nú getur maður byrjað að einbeita sér af fullri hörku að Rock Star Supernova sem hefst í kvöld á miðnætti. Ég hef fulla trú á því að Magni standi sig eins og hetja. Og hver skyldi ástæðan fyrir ofurtrú minni á Magna vera? Hún er einföld: Magni er magnaður!

mánudagur, júlí 03, 2006

sunnudagur, júlí 02, 2006

Þýskaland verður heimsmeistari. Ég nenni ekki að einhverjir aðrir vinni.

laugardagur, júlí 01, 2006

Þessi fáviti...

...er fáviti.

föstudagur, júní 30, 2006

Svona vil ég hafa undanúrslitin:

Þýskaland - Úkraína
og
England - Brasilía

Líkurnar á að þetta verði að veruleika eru álíka miklar og að David Beckham breytist í karlmann.

þriðjudagur, júní 27, 2006



VS



Ef froskalappirnar vinna Spánverja á eftir verð ég alveg kreisí. Kreisí, segi ég. Öll liðin sem ég held með eru að hrynja úr keppni eitt af öðru. Ætli maður endi ekki á því að styðja Þjóðverja til sigurs. Verra gæti það verið.

fimmtudagur, júní 22, 2006



VS



Ég myndi gefa eitt ár af ævi minni fyrir Tékkasigur í dag gegn pizzustrákunum. Það er ólíklegt að það gerist, en ég lagðist á bæn áðan og hef trú á því að veðurguðinn Óskar hafi heyrt í mér og virði óskir mínar. Þetta mót verður bara ekki eins án Tékkanna. Tékkland - Tékkaðu á því!

þriðjudagur, júní 20, 2006

David Beckham víkur um stund úr efsta sæti haturslistans mins, þar sem hann hefur einn og óstuddur ráðið ríkjum í ca. 10 ár. David má alveg hjálpa Englendingum aðeins á HM þar sem allt lítur út fyrir að mínir menn Tékkar detti út snemma með ræpu í brók. Þeir sem hirða efsta sætið á listanum af Beckham, a.m.k. næstu 3 vikurnar eða svo, eru skítbuxarnir hjá Ölgerðinni Egill Skallagrímsson sem ákváðu að breyta Mixinu. Ég hef alla tíð verið mikill Mix aðdáandi en nú er búið að breyta því og setja nýtt Mix á markaðinn með 50% minni sykri. Varla þarf að taka fram að þetta bragðast viðbjóðslega og má líkja þessu við muninn á Egils appelsínudjúsþykkni og sykurlausu Egils appelsínudjúsþykkni - annað afbragð, hitt ógeð. Ég skora á fólk að hætta að kaupa Mix. MIX ER NÚLL OG NIX!!!

föstudagur, júní 16, 2006

Nostradamus var ekkert merkilegri en Himmi

Svíar unnu Paragvæ 1-0 í gærkvöldi með skallamarki nærbuxnafyrirsætunnar Freddie Ljungberg á síðustu mínútunum. Stuttu eftir hádegi í gær, tæplega 7 klst. áður en leikurinn hófst, sendi Himmi mér þessa mynd sem hann teiknaði sjálfur. Ég er nú þegar búinn að leggja inn beiðni hjá honum um að teikna mig vinna í lottóinu.

miðvikudagur, maí 31, 2006

Ef ég heyri Vilhjálm Vilhjálmsson borgarstjóra einu sinni enn lýsa því yfir að hann sé ennþá bara þessi sami gamli Villi sem hann hefur alltaf verið þá er töluverð hætta á því að ég taki þennan sama gamla Villa og troði honum upp í rassgatið á sjálfum sér. Hann kynnist þá kannski sínum innri Villa, sem er jú líklega nýr og allt annar Villi.

þriðjudagur, maí 30, 2006

Mig langar til að stofna nýtt knattspyrnufélag. Nafnið á liðinu verður "Sverrir". Hugsið ykkur bara hversu skemmtilegt það yrði ef Ármann og Sverrir myndu etja kappi einhvern daginn.

mánudagur, maí 29, 2006


Sú ákvörðun að sýna afmælistónleikana hans Bubba í beinni sjónvarpsútsendingu hefur vakið úlfúð og deilur. Kóngurinn gefur lítið fyrir slíkt kvabb:

"hvað er að ykkur hvað er að því að sína tónleikana beint ég vildi það fyrir alla þá sem gátu ekki feingið miða hvaða ég fra mer til mín mórall er þetta og í guðanabænum komon peninga plott hvað seldu þá miðana þína og horfðu á þetta heima og græddu á því mer finst það frabært að þetta skuli vera í beinni kv Bubbin."

Láttu helvítin heyra það, Bóbó!

föstudagur, maí 26, 2006


Hinn frábæri söngvari og lagasmiður og sanni frumkvöðull Desmond Dekker er látinn, 64 ára að aldri. Voðalegur fálki er maður að hafa ekki drifið sig að sjá þennan meistara á tónleikum áður en hann dó. Ég heiti hér með að gera allt sem í mínu valdi stendur til að sjá allar mínar helstu hetjur spila áður en þær geyspa golunni, það er bara spurning með forgangsröðina. Hugsa að það gæti verið ráðlegt að hafa Bob Dylan, Kenny Rogers og Holly Johnson framarlega á listanum.

mánudagur, maí 15, 2006

Eins og glöggir lesendur Frívaktarinnar hafa tekið eftir má varla birtast sá spurningalisti á netinu að ég sé ekki mættur sveittur til að svara honum. Eftirfarandi listi er líklega með þeim lúðalegri sem sést hafa, en ég get ekki hamið mig:

1. Aldrei í lífi mínu: Aldrei að segja aldrei.
2. Þegar ég var fimm ára: Var Katla María eftirlætis tónlistarmaðurinn minn.
3. Menntaskólaárin voru: Ókei.
4. Ég hitti einu sinni: Val í Buttercup þegar ég var að horfa á Liverpool leik á Glaumbar. Brian Pilkington var líka þar. Ég veit ekki hvort þeir tveir komu saman.
5. Einu sinni þegar ég var á bar: Settist ég í ælu. Var mjög pirraður yfir því, jafnvel eftir að ég uppgötvaði að ælan var mín eigin.
6. Síðastliðna nótt: Sofnaði ég seint. Ég er þreyttur núna en náði samt að sjá L.A. Clippers vinna Phoenix Suns sem var stuð.
7. Næsta skipti sem ég fer í kirkju: Verður vonandi þegar einhver giftir sig, fermist eða skýrist. Ég hef ekkert á móti kirkjum.
8. Þegar ég sný hausnum til vinstri sé ég: Himma, samstarfsmann minn og Liverpúllara.
9. Þegar ég sný hausnum til hægri sé ég: Myndir af Robbie Fowler og Kobe Bryant.
10.Þegar ég verð gamall: Ætla ég að búa á stað þar sem ég get verið practically naked allt árið.
11. Um þetta leyti á næsta ári: Verður Liverpool u.þ.b. að vinna ensku deildina. Vonandi verð ég á staðnum.
12. Betra nafn fyrir mig væri: Boris.
13. Ég á erfitt með að skilja: Fífl.
14. Þú veist mér líkar vel við þig ef: Ég pota stundum óvænt í bumbuna á þér.
15. Fyrsta manneskjan sem eignaðist barn í mínum vinahóp er: Ölvir, svona af mínum nánustu held ég.
16. Farðu eftir ráðum mínum: Og hættu að kaupa þér stór sólgleraugu. Ég sé inn í tískuframtíðina og mjó sólgleraugu eru að fara meika stórt kombakk á næstu árum.
17. Uppáhalds morgunmaturinn minn er: Kókó Pöffs
18. Afhverju myndi ég hata þig?: Erfið spurning.
19. Ég myndi stoppa mitt eigið brúðkaup ef: Geir Ólafs ætti að syngja í því.
20. Heimurinn mætti alveg vera án: Coldplay og Manchester United.
21. Ég myndi frekar sleikja svínsrass en að: Sleikja Elton Johnsrass.
22. Bréfaklemmur eru nytsamlegri en: Reykelsi.
23. Ef ég geri e-ð vel, er það: Að teikna KR-merkið fríhendis.
24. Myndir sem ég felli tár yfir eru: Nokkuð margar. Í svipinn man ég t.d. eftir ET, Kolya og La Bamba.

þriðjudagur, maí 09, 2006


Hrafnhildur Kjartansdóttir, 12 vikna.

mánudagur, maí 08, 2006


Ég er að fara á Bubba! Það verður stuð stuðanna! Gefum Bubbla sjálfum orðið:

„hin almenni maður mætti snemma náði ser í stúkusæti
vip stúka verður fyrir bræður mína vini og styrktaraðila tónleikana það eru ekki nema kanski 100 miðar og mer finst það í góðu lagi það er ekkert samsæri í gangi kv Bubbin."

Gott að vita að það er allt á hreinu. Ekkert samsærisrugl í kringum hann Bubbó minn.

föstudagur, apríl 21, 2006

Stundum hugsa ég á ensku. Það gerist algerlega ómeðvitað, en þegar ég sé eða heyri um ákveðið fólk koma upp í hugann enskir frasar sem mér finnst lýsa persónunni afar vel. Dæmi:

Þegar ég sé eða heyri um rithöfundinn Andra Snæ Magnason kemur upp í hugann: "pompous ass."

Annað dæmi:

Þegar ég sé eða heyri um badmintonmeistarann Brodda Kristjánsson kemur upp í hugann: "great athlete."

Þegar ég hinsvegar sé eða heyri um leikarann Valdimar Örn Flygenring kemur aðeins eitt orð upp í hugann, og það á íslensku:

"Nammi!"

þriðjudagur, apríl 11, 2006

Ég var í London um daginn. Ég eyddi töluverðum tíma á Oxford Street og gekk margoft framhjá manni sem var með köngulóarvef húðflúraðan framan í sig og betlaði af mér peninga. Mér sýndist betlið ekki ganga sem skyldi hjá honum, a.m.k. gaf ég honum ekki krónu með gati.

- Ég komst ekki hjá því að velta því fyrir mér hvort honum hefði kannski gengið betur að betla ef hann hefði sleppt því að láta tattúvera köngulóarvef framan í sig.

sunnudagur, febrúar 19, 2006



Lífið er ljúft

Aldrei fyrr hefur mér þótt meira viðeigandi að vitna í meistarann, enda varla annað hægt þegar maður hefur eignast litla englastelpu. Sólargeislinn okkar kom í heiminn kl. 09:08 á þriðjudagsmorgunn, vó 13,5 merkur og mældist 50.5 cm. Yndisleg alveg hreint. Öllum heilsast vel.

föstudagur, febrúar 10, 2006


Pabbi

Hádí.

hljómleikamiði á dag kemur skapinu í lag. Ray Davies í gær í boði Láru og Goldie Lookin´ Chain í dag í boði Kalla. En segið mér eitt, kæru lesendur:

Er Einar Bárðarson þroskaheftur???

Einar rukkar 13.900 + 500 kr. miðagjald = 14.400 krónur fyrir dýrustu miðana á Ray Davies! Ókei - Ray er mikill snillingur og ég er mikill aðdáandi hans og allt það, en hann er samt 96 ára gamall fyrrverandi rokkogróler sem er með nýja hljómsveit með sér - það er ekki eins og þetta séu Kinks! Og þó að þetta væru Kinks væri þetta samt bjánalega dýrt! Ódýrustu miðarnir (eins og ég á) kostuðu 7.400 kall! Ég finn rottulykt, dömur mínar og herrar. Þetta er hættuleg þróun. Þessar verðpælingar hans Einars mega bara vera einar mín vegna.

laugardagur, febrúar 04, 2006


Spámaðurinn

Hér er mín túlkun á spámanninum Ellý Ármanns. Ég vona að enginn móðgist út í mig fyrir að myndgera spámanninn. Þetta er nú einu sinni frjálst land, er þaggi?

þriðjudagur, janúar 31, 2006


If life seems Johnny rotten,
There's something you've forgotten


Uppáhaldið mitt hann Johnny Rotten er fimmtugur í dag. Hann heiðra ég hér með lista yfir bestu lögin hans:

Topp 10 - Bestu lög Rotten:

1. Holidays in the Sun (Sex Pistols)
2. God Save the Queen (Sex Pistols)
3. This is Not a Love Song (PiL)
4. Anarchy in the U.K. (Sex Pistols)
5. Rise (PiL)
6. Public Image (PiL)
7. Pretty Vacant (Sex Pistols)
8. Open Up (Leftfield/Lydon)
9. EMI (Sex Pistols)
10. Submission (Sex Pistols)

laugardagur, janúar 28, 2006


Robbie Don´t Lose That Number

Fowler er kominn aftur til Liverpool. Lof sé guði á þessum drottins dýrðar degi. Það er ekki oft sem villtustu fótboltadraumar manns rætast. Heimkoma Robbie til Liverpool var minn villtasti fótboltadraumur og hann hefur ræst. Guð er góður.

miðvikudagur, janúar 25, 2006


Rest in peace mah nigguh.
Nælon

Himmler nældi í mig. Mér er ljúft og skylt að verða við ósk hans:

4 sjónvarpsþættir sem ég elska að glápa á:

The Simpsons
Popppunktur
The Office
Newlyweds

4 kvikmyndir sem ég get horft á aftur & aftur:

Nýtt Líf
Með Allt á Hreinu
Jón Oddur og Jón Bjarni
Quadrophenia



4 heimasíður sem ég dinglast inn á daglega:

liverpool.is
og svo fullt af bloggum

4 uppáhalds máltíðir:

Flatbrauð með hangikjeti
koli með gráðostasósu og banana
Íþróttasúrmjólk
El Maco!


4 geisladiskar sem ég get hlustað á aftur & aftur:

Snoop Doggy Dogg - Doggystyle
Bob Dylan - Blonde on Blonde
Tiny Tim - God Bless Tiny Tim
Sex Pistols - Never Mind the Bollocks


Ég næli í Palla, Dröfn, Bjössa, Laulau, Snorra og Ollu.

mánudagur, janúar 23, 2006

Kómiker ellegar dramatúrg?

Topp 5 - leiðinlegustu útlensku leikarar heims:

1. John Malkovich

2. Kevin Spacey

3. Ethan Hawke

4. Jeff Goldblum

5. Woody Allen

Eru ekki allir í stuði annars?

laugardagur, janúar 14, 2006

Kóngurinn talar

Af Bubbi.is:

Gleðilegt ár öll sömun og takk fyrir mig þið hafið gefið mer helling á þessu ári sem er að líða undir lok. vonandi verður árið 2006 árið ykkar og allt gangi ikkur í hag ástar þakkir öll sömun.
Bubbi ...


Eins og talað út úr mínu hjarta.

föstudagur, janúar 13, 2006

Hvis man har sagt a så må man også sige gurk

Gúrkutíð?
Þorpari í Þorpinu

Topp Fimm - Borgarar í Borginni:

1. Gleymérei borgari á Vitabar

2. Heavy Special með auka bbq-sósu á American Style

3. El Maco með auka osti á McDonalds

4. Black BBQ Burger á Kaffibrennslunni

5. Skinkuborgari á Nonnabita

Alls staðar annars staðar í heiminum hefði Whopperinn á Burger King komist inn á listann en ekki hér. Þeim hjá Burger King - Iceland tekst nefnilega á einhvern ótrúlegan hátt að klúðra þessu hnossgæti sem Whopperinn annars er. Brauðið er oftast gamalt og vont, kjötið slappt, ekki boðið upp á majónes og einhver skítafnykur af málinu öllu. Hangi þeir í hæsta gálga.

fimmtudagur, janúar 12, 2006

Pælingar

Lífið er flókið. Raunar svo flókið að oft á tíðum á ég í stökustu erfiðleikum með að botna nokkurn skapaðan hlut í því. Ótal spurningar leita á hugann á öllum tímum sólarhringsins. T.d. hef ég verið að velta eftirfarandi spurningum fyrir mér upp á síðkastið:

1. Hvar er Draumurinn?

2. What´s the frequency, Kenneth?

3. Who the fuck is Alice?

Mér er fátt um svör. Svona er nú lífið flókið. Best að fá sér bara epli.

miðvikudagur, janúar 11, 2006


Harðvítugar deilur Betu Rokk og Geirs Ólafs hljóta að vera skemmtilegasta fréttaefnið í langan tíma. Ég held að ég hafi ekki skemmt mér betur yfir fréttum síðan RÚV sýndi okkur reykjandi apann Charlie í dýragarði í Suður-Afríku fyrr á árinu.

laugardagur, janúar 07, 2006