þriðjudagur, apríl 06, 2004

Laugardagurinn 15. maí verður sannkallaður stuð-dagur. Fyrsti leikurinn í Landsbankadeildinni, KR - FH, klukkan 17.00 á KR-vellinum og svo beint í Júróvisjón eftir leik. Þetta gæti samt farið illa. KR-ingar hafa í gegnum tíðina átt í erfiðleikum með FH-inga og Íslendingar með Júróvisjón. Hef eiginlega meiri trú á Arnari Gunnlaugs en Jónsa. Lái mér hver sem vill.
Rétt í þessu er gamli Indverjinn sem var sundlaugarvörður í Vesturbæjarlauginni fyrir margt löngu að ganga fram hjá Árnagarði. Það er gaman. Það er alltaf gaman að sjá fólk sem maður heldur að sé látið spranga um fyrir utan gluggann hjá manni - sérstaklega ef það eru Indverskir sundlaugarverðir.

mánudagur, apríl 05, 2004

Gott ef Tvíhöfði hét ekki ennþá Heimsendir og var á dagskrá á sunnudagseftirmiðdögum á Rás 2 þegar Kurt Cobain skaut af sér kálið - eða sprautaði það af sér, ef eitthvað er að marka þessa grein eftir þekktan offituhlunk sem fær þó séns því hann er KR-ingur. Hljómsveitin Cigarette hafði nýlega gefið út lag sem fjallaði um Kurt og Jón og Sigurjón vildu ekki vera minni menn en Cigarette. Þeirra óður til Kurt hljómaði eitthvað á þessa leið:

Sigurjón: "Black is black"
Jón: "That's right"
Sigurjón: "I want my baby back"
Jón: "Yeah"
Sigurjón: "Kurt Cobain is dead"
Jón: "He sure is!"

svo man ég ekki meira en lagið var magnað, sem og þættirnir. Útvarpsleikritin "Hotel Wolksvagen" og "Verkstæðismenn í Vanda" pissa líklega á allt sem þeir hafa gert síðan. Sérstaklega var episódið af Hotel Wolksvagen þegar Rúnar Júlíusson var í gestahlutverki gott. Þar hittu söguhetjurnar Rúnar af tilviljun í Þýskalandi þar sem hann var staddur til að halda tónleika í sjúkrahúsinu í Svartaskógi. Þessa þætti mætti að skaðlausu endurtaka.
Jæja. 10 ár síðan Kurt Cobain skaut sig í haus. Nirvana var góð grúppa.

Topp 5 - Bestu Nirvanalögin:

1. About a Girl
2. Lithium
3. Territorial Pissings
4. Aneurysm
5. Serve the Servants

Daginn áður en hann skaut sig hafði ég verið að hlusta á In Utero í fyrsta skipti í marga mánuði. Það er margt skrýtið í kýrhausnum, Höskuldur.