Klukkan er að ganga eitt. Það þýðir að leikdagur er runninn upp. Skiljanlega hefur verið um fátt annað rætt hér í borginni en leikinn síðustu daga og einnig hér á heimilinu, enda grunar mig að bæði eiginkona mín og dóttir séu orðnar hundleiðar á tuði og vangaveltum um einhvern fótboltaleik sem þær hafa ekki minnsta áhuga á og verði þeirri stundnu fegnastar þegar leikurinn verður flautaður af. Þetta setur þó óneitanlega skemmtilegan svip á borgina, fánar og treflar úti um allt og Steven Gerrard grímur áberandi.
Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik, eiginlega allt of taugaspenntur og kvíðinn. Ég er dauðhræddur um að Liverpool tapi. Fór samt og veðjaði 20 pundum á að úrslitin verði 2-2 jafntefli. Það er ekki minnsta glæta að það gerist, en ég gat ekki fengið af mér að veðja á Liverpool tap og ég þykist nokk viss um að AC Milan skori hið minnsta 2 mörk í leiknum. Maður getur víst ekki átt Kaká og étið hann líka. Ég vona samt auðvitað að fólkið hjá Eurocard hafi rétt fyrir sér í auglýsingunni á þessari mynd (ég og Hrafnhildur erum líka á myndinni í lúmskt nettum stemmara).
Svo hittum við loksins George. Hann var hress en Hrafnhildur var jafnvel hræddari við hann en John og neitaði að pósa með honum á mynd nema að hafa pabba með sér. Nú á Hrafnhildur einungis eftir að hitta Paul og ég skal hundur heita ef það gerist ekki fyrr en síðar.
En nú er ég farinn að sofa. Ég á örugglega eftir að fá svipaða hálf-martröð og ég fæ alltaf nóttina fyrir svona stórleiki, að ég sofi yfir mig og missi af leiknum, sjónvarpið bili, mér verði neitað um inngöngu á pöbbinn eða eitthvað álíka skelfilegt. þessir draumar eru orðnir kunnuglegir og hræða mig ekki. Ég hræðist hinsvegar Ítalaskrattana. Vonandi reynist sá ótti ástæðulaus. Áfram Liverpool.