Kítl
Kítlið er eitthvað óskilgetið afkvæmi klukksins - maður á að punkta niður 5 atriði sem fara í taugarnar á manni. Það er hægur leikur:
Kjarrakítl:
1. Þegar gefnir eru út safndiskar sem innihalda eitt eða tvö lög í "live" útsetningum. Þetta var mjög áberandi fyrir nokkrum árum en hefur sem betur fer verið á undanhaldi. Gott dæmi um þetta er t.d. hinn annars ágæti safndiskur "Cornerstones" með Jimi Hendrix. Þar eru öll helstu lögin samankomin en "Stone Free" er "Live". Mér finnst tónleikaupptökur oftast leiðinlegar og vil bara eiga lögin í sínum upprunalegu útsetningum. Annars myndi ég einfaldlega kaupa mér tónleikaplötur.
2. Þegar Skari Skrípó birtist á skjánum. Einhverra hluta vegna hélt ég að það væri búið að jarða þennan leiðindakarakter fyrir mörgum árum síðan, en svo birtist hann eins og draugur úr forneskju í hverri auglýsingunni á fætur annarri upp á síðkastið.
3. Þegar starfsmenn stórmarkaða sinna ekki starfi sínu og hafa vörur á boðsstólnum sem eru annaðhvort útrunnar eða við síðasta söludag. Ég geri ætíð ráð fyrir því að nýtt og ferskt stöff sé í hillunum og tékka aldrei á síðasta söludegi, nema á mjólkinni. Ég hef fóbíu fyrir gömlum mat og því er þetta mjög bagalegt.
4. Þegar talað er um frægð eða frægt fólk hér á Íslandi. Þetta er svo banalt hugtak hérna á þessu smáskeri. Hver er ekki frægur hér? Var að horfa á Ædolið um daginn og í þættinum sagði Bubbi við eina snótina: "Ef þú ætlar að leggja þig fyrir þessu - (ætlaði líklega að segja "leggja þetta fyrir þig") - þá verðurðu fræg! Hún er nú þegar orðin "fræg" Bubbi minn, bara fyrir það eitt að birtast í þessum þætti sem 87% þjóðarinnar horfir á.
5. Þegar fólk lítur á það sem ómissandi hluta af einhverri "jólastemmningu" að stressa sig á öllu, að allt þurfi að vera svona en ekki hinsegin og bla bla bla, allt í nafni jólanna. Flestir sem ég þekki eru aldrei meira stressaðir og illa fyrir kallaðir en rétt fyrir jólin. Væri ekki ráð að slappa aðeins af og hafa það í huga að Jólin eru fyrir börn, gott fólk!
Ég kítla Palla, Snorra, Brynju, Dröfn, Himma og Kötu.
Góðar stundir.