Eiki bleiki (eirikurg.blog.is - ég kann ekki ennþá að gera linka á þessum bjánalega nýja blogger) hvatti til umræðu um lög sem maður skammast sín fyrir að fíla á blogginu sínu. Hér er mitt framlag og hvet ég lesendur til að láta í sér heyra um þetta mál:
Það er reyndar orðum aukið að ég skammist mín fyrir að fíla eftirfarandi lög. Ég tók upp þann sið fyrir nokkru síðan að hætta að skammast mín fyrir að fíla ákveðin lög, hljómsveitir eða tónlistarmenn og horfast í augu við þær staðreyndir að hverjum þykir sinn fugl fagur, ekki er öll vitleysan eins, maður er manns gaman og margt er skrýtið í kýrhausnum. Hér er engu að síður listi yfir þrjú lög sem ýmsum hefur brugðið í brún við að heyra mig dásama, lög sem ég set ekki á fóninn í matarboðum nema ég sé í mjög góðra vina hópi:
1. Mika - Grace Kelly: Það virðist öllum vera í nöp við þennan vinalega hómósexúalista, öllum nema flestum 10-15 ára stúlkum í heiminum a.m.k. Mér finnst hann nettur. Hann minnir mig á Queen, Scissor Sisters og Abba - allt eðalgrúppur sem mótað hafa tónlistarsögu vesturlanda að ákveðnu leyti. Love Today er fínt, Big Girls enn betra, en Grace Kelly er best.
2. Bahá Men - Who Let the Dogs Out?: Ég veit ekki almennilega hvað ég var að gera árið 2000 þegar þetta lag var nánast á repeat í útvarpinu svo mánuðum skipti. Ég hef líklega verið að vinna í útvarpslausu umhverfi því ég heyrði lagið örsjaldan og þegar ég loksins hóf að fíla það af krafti voru flestir sem ég þekki orðnir svo hundleiðir á laginu að þá langaði mest til að skjóta Bahá mennina í hnakkann. Ég myndi frekar færa þeim fálkaorðuna fyrir að sjá framleiðendum fréttatíma um víða veröld fyrir sándtrakki undir myndum af hundasýningum um aldur og ævi.
3. Chris DeBurgh - Lady in Red: Efst á listanum mínum yfir lög sem skemmtilegt er að syngja í sturtu. Ekki skemmir fyrir að Chris er fanatískur Liverpool aðdáandi og flýgur reglulega í þyrlunni sinni til Liverpool til að komast á leiki á Anfield. Ég verð illa svikinn ef þyrlan hans heitir ekki Lady in Red og er rauð á litinn.