fimmtudagur, janúar 25, 2007
Ég var nýverið neyddur til að skipta um blogger og skemmst er frá því að segja að þessi nýi blogger er ömurlegur. Síðan er öll í hassi: grænir stafir á grænum bakgrunni, allar gömlu færslurnar mínar horfnar og myndirnar af ávöxtunum farnar líka. Mér er illa við að skipta alfarið um útlit á síðunni enda hef ég verið mjög ánægður með ávaxtalúkkið í þessi bráðum fimm ár sem Frívaktin hefur verið til. En er einhver Tóti Tölvukall þarna úti sem getur hjálpað mér að finna gömlu færslurnar?
Ég var á leiðinni heim úr ASDA súpermarkaðnum áðan í pissandi, grenjandi rigningu og hélt á u.þ.b. tíu níðþungum plastpokum, troðfullum af næringarríkum matvörum. Fyrir utan húsið sem ég bý í renndi þá upp mér bíll og tveir ungir menn sem í honum voru spurðu mig hvort ég vissi nokkuð hvað klukkan væri. Ég nennti alls ekki að leggja frá mér alla pokana og líta á klukkuna en að sama skapi vildi ég ekki vera dónalegur við þessa vingjarnlegu drengi. Ég lagði því allt draslið frá mér en í þann mund sem ég lyfti upp hendinni til að líta á úrið mitt sprungu strákarnir úr hlátri og brenndu í burtu. Ég hló ekki. En ég glotti inni í mér. Svona eftir á. Löngu eftir á.....