fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Ókeiiiiiiiii......

Núna rétt áðan hitti ég gamla bekkjarsystur mína hérna á Þjóðarbókhlöðunni og við tókum tal saman. Í þessu örstutta samtali sem við áttum tókst henni á aðdáunarverðan hátt að segja"ókeiiiiiiiii" 4 sinnum;

1.
Hún: Hvað ertu að læra?
Ég: Félagsfræði
Hún: Ókeiiiiiiiiii!

2.
Hún: Áttu mikið eftir?
Ég: Nei
Hún: Ókeiiiiiiii!

3.
Hún: Býrðu ennþá í Þingholtunum?
Ég: Nei, á Vesturgötunni
Hún: Ókeiiiiiiiiii!

4.
Hún: Ertu oft hér að lesa?
Ég: Það kemur fyrir
Hún: Ókeiiiiiiiiiii!

Nú hef ég svo sem ekkert á móti þessu orði - ókei, en það fer í mínar fínustu taugar hvernig meginþorri ungs fólks notar það um þessar mundir. Ókei er fínt orð. Ef einhver segir t.d. við mig: "hei Kjarri, ég ætla út í sjoppu - ég kaupi Maltöl og Fetaost fyrir þig eins og venjulega!" þá svara ég að bragði: "ókei" - til að kvitta fyrir það að ég hafi heyrt í viðkomandi, skilið það sem hann sagði og sé sáttur við ráðahaginn. Þau ókei sem ég læt út úr mér eru stutt og og laggóð. "Ókei!" Nú um stundir notar fólk þetta orð í tíma og ótíma í samtölum sín á milli í stað þess að segja bara "já, já" eða "einmitt" eða eitthvað í þeim dúr og það böggar mig - en þó ekki eins mikið og það böggar mig hvernig fólk segir þetta: "ókeiiiiiiiii." Það er erfitt að lýsa málrómnum nákvæmlega en mig grunar að þið skiljið hvað ég á við. Þetta er eitthvað svo hryllilega amerískt og viðbjóðslegt, og það sem verra er;, það virðast bókstaflega allir gera þetta. Ég veit ekki alveg hvernig ég slapp við þetta helvíti en mig grunar að ég hafi verið búsettur erlendis þegar þessi viðbjóður hófst - í það minnsta man ég ekki eftir að hafa orðið var við þennan faraldur áður en ég fór út og ég man vel eftir fyrsta skiptinu sem þetta truflaði mig alvarlega; þá fékk ég senda vídeóspólu í flugpósti með einhverjum þætti sem mig langaði til að sjá og aftast á spólunni hafði slæst með hluti úr þættinum Ísland í Dag. Þá var Andrea Róberts við stjórnvölinn og var að taka viðtal við einhvern aðila sem ég kann ekki frekari deili á (ætli það hafi ekki verið konan sem hún spurði á svo eftirminnilegan hátt hvort það væru margir Íslendingar sem smituðust af krabbameini á ári hverju), en ég hjó eftir því að eftir hvert einasta svar tónaði Andrea svo hrollur fór um mig allan: "ókeiiiiiiiiiiiiii". Þá hélt ég auðvitað að þetta atferli væri bundið við Andreu og mögulega nokkrar misvitrar vinkonur hennar - mig grunaði ekki að þegar ég kæmi heim til Íslands u.þ.b. ári síðar væri nánast hver einasti Íslendingur á aldrinum 5 til 35 ára farin að apa þetta eftir henni. Ég reyndi lengi að leiða þetta hjá mér en nú er svo komið að ég get hreinlega ekki orða bundist.

Nú er ég alls enginn málfarsfasisti og hundleiðist fólk sem er sýknt og heilagt að leiðrétta mig. Ég sletti eins og aðrir, bæði ensku og dönsku og m.a.s. stöku sinnum sænsku. En það er eitthvað við þetta andskotans "ókeiiiiiii" sem fer alveg hreint voðalega í mig. Ég veit ekki alveg af hverju. Elskuleg kærasta mín tók eftir því að ég byrjaði að svitna og skjálfa í hvert sinn sem hún notaði þetta og er blessunarlega farin að hætta því, a.m.k. í námunda við mig, en sömu sögu er ekki að segja af flestum öðrum. Þetta er farið að taka á taugarnar og því vil ég nýta mér þennan vettvang til þess að hvetja fólk til að hætta þessu. Ég hef ákveðið að gefa ykkur rúman tíma til að venja ykkur af þessu - heila 2 mánuði. Ef þetta verður ekki komið í lag þá neyðist ég til að grípa til örþrifaráða. Þau ráð felast í því að ég mun taka upp á því við hvern þann sem bombardar mig með "ókeiiiiiiiiii"-um að bombarda viðkomandi á móti með einni verulega slæmri klysjusetningu út bandarískri bíómynd. Þetta er auðvitað neyðarúrræði - nauðsyn brýtur lög. Ég er dusilmenni - en ekki algert dusilmenni þannig að ég hef ákveðið að leyfa ykkur, lesendum, að velja klysjuna. Þessar 3 klysjur eru í boði: (vinsamlegast kjósið í Klæng Sniðuga)

1. Smmmokkinnnnnn!!!! (Jim Carrey í The Mask)

2. Un-fuckin´-believable - OH!!!! (Andrew Dice Clay í Ford Fairlane)

3. Gooooood Morning Vietnaaaaaaam!!!! (Robin Williams í Good Morning Vietnam)

Hljómar illa, ekki satt? Ég hef fulla trú á því að okkur takist með samstilltu átaki að ná markmiðinu:

ÓKEIIIIII-LAUST ÍSLAND 2005

Góðar stundir.

Engin ummæli: