mánudagur, janúar 24, 2005

Arnar og Borgarholt

Jú jú það var sosum fínn niðurgangur að MR skyldi detta út úr Gettu Betur en þessir Borgarholtsgæjar eru samt strax farnir að fara illa í taugarnar á mér. Allt of öruggir með sjálfa sig þessir drengstaular og slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra.

Mín kona í Ædolinu, hlunkurinn Ylfa Lind, fretaði á sig á föstudaginn og var satt að segja ljónheppin að lafa inni í keppninni. Ég held samt með henni áfram en grunar að keppurinn Davíð eigi eftir að eflast við hverja raun. Það má a.m.k. alls ekki vanmeta hann. Hann lyfti samt ekki neinum á föstudaginn var og það er áhyggjuefni. Ég fæ nefnilega ekki nóg af því að horfa á hann lyfta fólki.

Fór á Stuðmannamyndina í bíó um daginn. Hefði betur látið það ógert.

Dreymdi í nótt að kötturinn hennar Drafnar réðist á mig í þeim tilgangi að éta mig upp til agna. Þessum kattamartröðum mínum hefur fjölgað ískyggilega mikið upp á síðkastið og gera það að verkum að ég er orðinn lafhræddur við þessi óargardýr, þ.e.a.s. hræddari en áður. Hér áður fyrr var ég vanur að sýna a.m.k. smá lit og hreyta fúkyrðum í ketti sem urðu á vegi mínum til að reyna að fela ótta minn en þessa dagana sýni ég þessum verkfærum Satans óttablandna virðingu og fer bara yfir á hina gangstéttina eða sný við. Stórum hluta af þessu hatri mínu á köttum á ég að þakka bíómynd sem ég sá í sjónvarpinu þegar ég var í pössun hjá ömmu og afa þegar ég var lítill, líklega u.þ.b. sex til átta ára. Þessi mynd fjallaði um blinda konu sem dreymdi í sífellu að kettir væru að ráðast á sig og líklega hefur myndin endað þannig að þessi andstyggðarkvikindi hafa rifið vesalings konuna í sig, en þá var ég hættur að horfa enda löngu orðinn stjarfur af hræðslu. Man einhver eftir þessari mynd?

Loksins! Við þurfum ekki að bíða lengur! Krummi bloggar!!!




Engin ummæli: