fimmtudagur, desember 21, 2006


Jólajól

Ég er kominn til Íslands, jólin nálgast óðfluga og því ekki seinna vænna að gerast jákvæður, hress, fullur af náungakærleik og, umfram allt annað, að SMELLA SÉR Í GOTT JÓLASKAP! Nokkrir punktar:

Ég skellti mér á Radíuskvöld í gær. Radíusbræður voru dálítið ryðgaðir eins og við mátti búast en ekki alslæmir, og mikið var ég sammála Steini Ármanni þegar hann talaði um Baggalút og þessi viðrinis jólalög þeirra. Mikið svakalega finnst mér þetta leiðinlegt og ófyndið helvíti. Hverjum finnst þessir Baggalútsgæjar sniðugir? Og hverjir eru að kaupa þessar plötur þeirra? Mér er spurn.

Heyrði lag með Bríeti Sunnu í útvarpinu í dag. Það var mikil lífsreynsla. Ekki einasta er hún Bríet blessunin með hálf ónýta söngrödd heldur var texti lagsins algjörlega sér á parti. Ég man ekki textann í smáatriðum en tvær setningar stóðu upp úr, eitthvað á þessa leið:

a) "Ég er flutt út úr íbúðinni í Keflavík og búin að finna mér nýjan stað."

og

b) "Mamma sagði mér að ég ætti að hætta að hugsa um þig, Erla sagði að þetta myndi líða hjá."

Dýrt kveðið.

Þegar ég hugsa um leiðinlegar íslenskar hljómsveitir hefur Nýdönsk verið mér efst í huga í áraraðir. Lengi vel hef ég ekki getað ímyndað mér að til væri verri íslensk grúppa, en nú eru teikn á lofti. Hljómsveitin Ampop er ansi líkleg til að velta Nýdönsk úr sessi á næstu mánuðum eða árum, svo leiðinleg er hún. Fylgist spennt með framvindu þessa máls hér á Frívaktinni.

Ég óska hundtryggum og þolinmóðum lesendum mínum gleðilegra jólahjóla.

Engin ummæli: