sunnudagur, nóvember 11, 2007


Kannski á þessi maður bíl. Kannski ekki. Ég veit ekkert um það. Ég veit hinsvegar að mig bráðvantar bíl hið snarasta. Endilega látið mig vita ef þið vitið af góðum díl. Allt kemur til greina, frá druslum til drossía.

laugardagur, október 06, 2007

Konfekt - Tussuduft

Ég gæti trúað því að þetta sé fyndnasta íslenska grínatriði sem ég hef séð. Á ævinni.

þriðjudagur, september 25, 2007

adverts gary gilmore's eyes

Mikið djöfulli er þetta nú fínt lag. Síðast þegar ég vissi bjó trommari The Adverts, Laurie Driver, á Íslandi. Hafa lesendur frekari vitneskju um afdrif hans?

mánudagur, september 24, 2007


Óléttar konur grípur oft ómótstæðileg löngun í eitthvað alveg sérstakt, oftast matarkyns. Gildir þá einu hvort smekkur fyrir viðkomandi hlut hafi verið til staðar fyrir óléttu eður ei. Ég held að ég sé óléttur. Mig langar alveg gríðarlega, djöfullega mikið í Los Lobos stuttermabol.

fimmtudagur, september 20, 2007




Toggi pungsjampó er byrjaður að blogga á slóðinni thorgrimur.eyjan.is. Grípum niður í eina af mörgum áhugaverðum sögum Þorgríms:

"Hinn yndislegi Gunnar Eyjólfsson leikari læddist aftan að mér þar sem ég sat á Kaffitár á dögunum. Hann spurði: ,,Þorgrímur, hvað er það að tala?”. Ég reyndi að hugsa eitthvað djúpt og viturt en sagði svo eitthvað kjánalega spekingslegt. Þá sagði þessi mikilsverði maður sem treystir lífsins orku dags daglega. Enda er hann Qi-Gong maður: ,,Að tala er að rjúfa þögn!”

Það er svo margt að, svo margt sem gerir mig reiðan, svo margt sem hræðir mig, svo margt sem gerir mig ringlaðan, innifalið í þessum örfáu línum að mér verður orða vant. En eitt er víst: ég mun fá martröð í nótt, og sú martröð mun skarta mér, Togga og Gunna í aðalhlutverkum og sögusviðið verður Kaffitár.

miðvikudagur, september 19, 2007

Ricky Gervais guests on the F-Word

Ricky Gervais getur verið mjög funny. Mæli með þessu - fyndnasta stöffið er í endann.

sunnudagur, september 16, 2007

China Crisis - Black Man Ray

Jæja, ég náði loksins að finna út úr þessu veseni með að pósta youtube dóti á bloggið mitt. Vandamálið var ekki ýkja flókið þegar allt kom til alls: þessi nýi blogger er vanskapaður saur. Eníhú.
Ég er í nostalgíukasti að hlusta á Liverpool hljómsveitir frá 9. áratugnum, er að tapa mér yfir OMD, Echo and the Bunnymen, Frankie Goes to Hollywood, Teardrop Explodes og svo mætti lengi telja. China Crisis eru nú samt the pick of the bunch. Hver sem þú ert og hvað sem þú ert að gera - ég skipa þér að taka þér pásu og hlusta á þetta hreinræktaða og unaðslega popp, beinustu leið frá the Pool of Life. Þetta er eins og hunang fyrir eyrun, ef þér þykir gott að vera með klístruð eyru. Þú verður betri manneskja fyrir vikið, ég ábyrgist það. Herrar mínir og frúr, frá Liverpool - China Crisis gjörið svo vel.

miðvikudagur, ágúst 29, 2007

Eiki bleiki (eirikurg.blog.is - ég kann ekki ennþá að gera linka á þessum bjánalega nýja blogger) hvatti til umræðu um lög sem maður skammast sín fyrir að fíla á blogginu sínu. Hér er mitt framlag og hvet ég lesendur til að láta í sér heyra um þetta mál:

Það er reyndar orðum aukið að ég skammist mín fyrir að fíla eftirfarandi lög. Ég tók upp þann sið fyrir nokkru síðan að hætta að skammast mín fyrir að fíla ákveðin lög, hljómsveitir eða tónlistarmenn og horfast í augu við þær staðreyndir að hverjum þykir sinn fugl fagur, ekki er öll vitleysan eins, maður er manns gaman og margt er skrýtið í kýrhausnum. Hér er engu að síður listi yfir þrjú lög sem ýmsum hefur brugðið í brún við að heyra mig dásama, lög sem ég set ekki á fóninn í matarboðum nema ég sé í mjög góðra vina hópi:

1. Mika - Grace Kelly: Það virðist öllum vera í nöp við þennan vinalega hómósexúalista, öllum nema flestum 10-15 ára stúlkum í heiminum a.m.k. Mér finnst hann nettur. Hann minnir mig á Queen, Scissor Sisters og Abba - allt eðalgrúppur sem mótað hafa tónlistarsögu vesturlanda að ákveðnu leyti. Love Today er fínt, Big Girls enn betra, en Grace Kelly er best.

2. Bahá Men - Who Let the Dogs Out?: Ég veit ekki almennilega hvað ég var að gera árið 2000 þegar þetta lag var nánast á repeat í útvarpinu svo mánuðum skipti. Ég hef líklega verið að vinna í útvarpslausu umhverfi því ég heyrði lagið örsjaldan og þegar ég loksins hóf að fíla það af krafti voru flestir sem ég þekki orðnir svo hundleiðir á laginu að þá langaði mest til að skjóta Bahá mennina í hnakkann. Ég myndi frekar færa þeim fálkaorðuna fyrir að sjá framleiðendum fréttatíma um víða veröld fyrir sándtrakki undir myndum af hundasýningum um aldur og ævi.

3. Chris DeBurgh - Lady in Red: Efst á listanum mínum yfir lög sem skemmtilegt er að syngja í sturtu. Ekki skemmir fyrir að Chris er fanatískur Liverpool aðdáandi og flýgur reglulega í þyrlunni sinni til Liverpool til að komast á leiki á Anfield. Ég verð illa svikinn ef þyrlan hans heitir ekki Lady in Red og er rauð á litinn.

þriðjudagur, ágúst 14, 2007

Hrafnhildur er eins og hálfs árs í dag og óskar Frívaktin henni að sjálfsögðu innilega til hamingju með þann merka áfanga. Pabbi hennar stóðst ekki mátið á afmælisdaginn heldur gerðist plebbalegur og gaf henni fótboltabúning bæjarliðsins. Hrafnhildur tekur sig afspyrnu vel út í honum og er með alla takta á tæru eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum

mánudagur, júlí 30, 2007

Kaká:



Jesus Fernandez:

fimmtudagur, júlí 26, 2007



Ég fór á Simpsons myndina í bíó í gærkvöldi. Ég mæli eindregið með henni fyrir þá sem eru annaðhvort:

a) börn

eða

b) bjánar

Öðrum ráðlegg ég að halda sig fjarri.

sunnudagur, júní 24, 2007

Von er á nýrri plötu frá meistara Megasi. Eins og glöggt má sjá á umslagi plötunnar ætlar Megas sér að stíla inn á yngri plötukaupendur en hans er von og vísa, hina svokölluðu "klámkynslóð".

fimmtudagur, júní 21, 2007

Ef ég skyldi þurfa að standa í einhverskonar fasteignaviðskiptum á næstunni þá veit ég sko í hvern ég hringi.

miðvikudagur, júní 20, 2007

Tillaga mín að nýjum þjálfara KR-inga:

Hann getur varla verið slappari en núverandi þjálfari.

mánudagur, júní 18, 2007

...en ég er nú samt ekki svo latur að ég geti ekki séð af örfáum mínútum til að tuða aðeins yfir þessu andsk helv djö reykingabanni sem hangir yfir höfði mér eins og Michelin-kalls loftbelgur. Þetta leiðindabann skellur á þ. 1. júlí hér í Tjallistan og mér er skapi næst að gera ekki nokkurn skapaðan hlut annan næstu 12 daga en að þræða knæpur og kaffihús Liverpoolborgar, keðjureykja og vera með almennan dónaskap og leiðindi. Þannig tekst mér mögulega að gera viðskilnaðinn bærilegri, bæði fyrir mig og starfsfólk staðanna, því það veit sá sem allt veit (ég) að ég mun ekki stíga fæti inn á 99% þessara staða aftur. Planið mitt felur í sér að ég mun velja mér einn pöbb af kostgæfni til að sækja í neyðartilfellum (m.ö.o. Liverpool leikjum). Að öðru leyti er áralöngu ástarsambandi mínu við pöbba og kaffihús næstum lokið. Ég væri mellonkollí með kökk í hálsinum ef ég væri ekki svona bálreiður yfir þessu. Gerir þetta lið sér ekki grein fyrir þeirri sáraeinföldu staðreynd að það er TÖFF að reykja?
Ég var að fá glænýtt vegabréf í hendurnar. Það rennur út í júní 2012. Ég er strax orðinn kvíðinn því að þurfa að standa í því að endurnýja það eftir fimm ár. Ég nenni því bara alls ekki. Ég er latur, latur maður.

þriðjudagur, maí 22, 2007

Klukkan er að ganga eitt. Það þýðir að leikdagur er runninn upp. Skiljanlega hefur verið um fátt annað rætt hér í borginni en leikinn síðustu daga og einnig hér á heimilinu, enda grunar mig að bæði eiginkona mín og dóttir séu orðnar hundleiðar á tuði og vangaveltum um einhvern fótboltaleik sem þær hafa ekki minnsta áhuga á og verði þeirri stundnu fegnastar þegar leikurinn verður flautaður af. Þetta setur þó óneitanlega skemmtilegan svip á borgina, fánar og treflar úti um allt og Steven Gerrard grímur áberandi.

Ég er mjög spenntur fyrir þessum leik, eiginlega allt of taugaspenntur og kvíðinn. Ég er dauðhræddur um að Liverpool tapi. Fór samt og veðjaði 20 pundum á að úrslitin verði 2-2 jafntefli. Það er ekki minnsta glæta að það gerist, en ég gat ekki fengið af mér að veðja á Liverpool tap og ég þykist nokk viss um að AC Milan skori hið minnsta 2 mörk í leiknum. Maður getur víst ekki átt Kaká og étið hann líka. Ég vona samt auðvitað að fólkið hjá Eurocard hafi rétt fyrir sér í auglýsingunni á þessari mynd (ég og Hrafnhildur erum líka á myndinni í lúmskt nettum stemmara).

Svo hittum við loksins George. Hann var hress en Hrafnhildur var jafnvel hræddari við hann en John og neitaði að pósa með honum á mynd nema að hafa pabba með sér. Nú á Hrafnhildur einungis eftir að hitta Paul og ég skal hundur heita ef það gerist ekki fyrr en síðar.

En nú er ég farinn að sofa. Ég á örugglega eftir að fá svipaða hálf-martröð og ég fæ alltaf nóttina fyrir svona stórleiki, að ég sofi yfir mig og missi af leiknum, sjónvarpið bili, mér verði neitað um inngöngu á pöbbinn eða eitthvað álíka skelfilegt. þessir draumar eru orðnir kunnuglegir og hræða mig ekki. Ég hræðist hinsvegar Ítalaskrattana. Vonandi reynist sá ótti ástæðulaus. Áfram Liverpool.

fimmtudagur, maí 17, 2007

Jæja, 6 dagar í leikinn stóra og ég er strax orðinn hálf ómögulegur og tæpur á taugum. Mátulega bjartsýnn eina stundina en niðurdreginn og handviss um niðurlægjandi ósigur minna manna þá næstu. Eitt allra besta ráðið til að ýta svona hugarórum til hliðar um stund er að drífa sig í ASDA súpermarkað, og ekki er verra ef stafræn myndavél er með í för. Þar eru til sölu skemmtilegir hlutir eins og:



og



Því miður var uppáhaldið mitt, spotted dick, ekki til í þetta skiptið.

sunnudagur, maí 13, 2007

Þjóðin kaus Sjálfstæðisflokkinn...

...sem mér finnst mjög skrýtið. Þessir tveir voru báðir í framboði...




...og hvorugur þeirra er í Sjálfstæðisflokknum. Hvernig fær þetta staðist?

miðvikudagur, maí 02, 2007


Jæja, svona er víst lífið blessað. Það hefði verið gaman að mæta Man U í úrslitaleiknum þann 23. maí, en þeir voru eitthvað slappir í kvöld strákarnir. Kannski þeir hafi kúkað full mikið á sig? Eða ræpt? Einnig er líklegt að niðurgangurinn hafi haft sitt að segja. Það er ekki auðvelt að leðja svona svakalega á sig fyrir leik og ætla svo að gera einhverjar rósir. Líklegast þykir mér þó að hin eitraða blanda skíts og mykju í stuttbuxum leikmanna hafi endanlega gert út af við vonir þeirra um að vinna Evrópubikarinn í ár. Það er synd, því ef þeir hefðu unnið hefði það orðið í þriðja sinn. Nottingham Forest hefur einungis unnið dolluna tvisvar, og því hefðu manjúmenn getað gortað af því að hafa unnið Evrópukeppnina einu sinni oftar en stórliðið frá Skírisskógi. En svona er víst lífið blessað.

þriðjudagur, maí 01, 2007

Eftir leikinn í kvöld er ég uppgefinn og úrvinda, andlega sem líkamlega. Látum blómin tala.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

Ég hef ekki bloggað í næstum mánuð, enda er ekkert að frétta nema það að ég er á kafi í ritgerðarsmíðum og almennum skólatengdum leiðindum. Dagurinn í dag var þó óvenju viðburðaríkur. Hér gefur að líta helstu ástæður þess:

1. Þegar ég var á leiðinni út í morgun fattaði ég skyndilega að ég hafði gleymt að setja á mig rakspíra. Ég vatt mér því inn á baðherbergið en nennti ekki að kveikja ljósið, greip rakspíraflöskuna og ætlaði að spreyja á handarbakið, en flaskan sneri öfugt og því gusaðist allt beint í augun á mér.

2. Þegar ég var kominn niður með lyftunni gekk ég fram á veski sem lá á gólfinu í ganginum. Ég stóðst ekki freistinguna að kíkja í veskið til að kanna hvort þar væri eitthvað spennandi að finna. Ég stóðst hinsvegar freistinguna að stela því eina sem var í veskinu, spjaldi af Viagra töflum.

3. Þegar ég svo kom heim rétt í þessu biðu mín þessi skilaboð á msn:

orville would like to send you the file "fartPorn.mpg" (4950 Kb). Transfer time is less than 42 minutes with a 28.8 modem. Do you want to (Ctrl+T) or (Ctrl+D) the invitation?

Hvað hefðuð þið gert?

fimmtudagur, mars 29, 2007


Það er bara einn maður sem ég þekki sem myndi dirfast að halda því fram að á sínum tíma hafi Michael Laudrup EKKI verið á meðal allra bestu knattspyrnumanna í heimi. Hann heitir Hilmar Hilmarsson. Nú spyr ég ykkur, lesendur góðir: Hvað er maðurinn að pæla? Er hann eitthvað kreisí, eller hvad?

sunnudagur, mars 25, 2007


Það hlaut að koma að því að Hrafnhildur rækist á Lennon á röltinu. Hún var ekki jafn hrifin af honum og Ringo forðum og fór að háskæla þegar hún hitti hann. Enda ekki skrítið, maðurinn búinn að vera steindauður í næstum þrjátíu ár. Ég nötraði sjálfur af draugahræðslu, jafnvel þó styttan sé eiginlega líkari Gerði B. Bjarklind þulu á RÚV heldur en John Lennon.

miðvikudagur, mars 21, 2007

Nýr fastur liður á Frívaktinni!

Eins og líklega flestir vita er ég einn besti ljósmyndari í heimi. Nýjasta verkefnið mitt felur í sér að arka um höfuðborg popptónlistarinnar, Liverpool, og taka ljósmyndir. Innihald ljósmyndanna er svo hægt að tengja við titilinn á þekktu dægulagi. Njótið vel.

Mynd nr. 1:

SMOKE ON THE WATER

þriðjudagur, mars 20, 2007


Life Goes On

Var einhver ad velta tvi fyrir ser hvad skapgerdarleikarinn godkunni Chris Burke hefur haft fyrir stafni sidustu arin?

þriðjudagur, mars 06, 2007


Hrafnhildur er nýbyrjuð að tjá sig um sín hugðarefni. Okkur telst til að fyrsta orðið hennar hafi verið "bebe" sem þýðir í raun "BB". Ég vissi hreinlega ekki að dóttir mín væri svona mikill blúsáhugamaður, var hálfpartinn að vona að fyrstu orðin yrðu "Bjartmar", "Morrissey", "Ice-T" eða eitthvað í þá áttina, en nei! BB skal það vera og er það hið fínasta mál. Ég skýt á að næsta orð verði annaðhvort "Muddy" eða "Pinetop".

sunnudagur, mars 04, 2007




Síðan ég fékk kosningarétt hef ég alltaf nýtt atkvæðisrétt minn. Aldrei skilað auðu, alltaf merkt við skásta kostinn hverju sinni. Nema eitthvað stórvægilegt gerist á næstu þremur mánuðum mun sú ekki verða raunin í vor. Það eina sem ég þarf að gera upp hug minn um er hvort ég eigi að hrækja eða skeina mér á atkvæðisseðlinum.

föstudagur, mars 02, 2007

Spurning: Hvað eiga eftirfarandi 3 lög sameiginlegt, fyrir utan það að vera tvímælalaust í hópi bestu laga í heimi?

1. Roy Orbinson - Blue Bayou
2. Billy Joel - An Innocent Man
3. The Zutons - Confusion

Svar: Þau byrja öll nákvæmlega eins.

Voðalega er lítið stuð að vera með svona músíkpælingar þegar maður getur ekki leyft lesendum að heyra það sem maður er að þvaðra um. Mig langar í alvöru heimasíðu þar sem ég get boðið lesendum upp á músík og myndir og þessvegna rassgatið á mér ef ég skyldi vera í þannig fíling. Hver getur hjálpað mér að búa þannig til?

Annars er ég á leiðinni á Liverpool - Man United á morgun en ætla ekki að vera með neinar yfirlýsingar, minnugur fíaskósins sem fylgdi í kjölfar síðasta kjaftbrúks hjá mér. Læt nægja að segja að ég vonast til þess að við töpum ekki leiknum. Fyrir þessum ræflum.

fimmtudagur, mars 01, 2007


Netlögga

miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Tímamótaverkið "Kökubókin" sem Afgreiðsla Smjörlíkisgerðanna hf. gaf út á áttunda áratugnum er stappfull af nytsamlegum ábendingum:

Brúna tertu mætti skreyta eins og negrahöfuð fyrir barnasamkvæmi. Hárið er skafið súkkulaði og ananas og brjóstsykri raðað kringum negrahöfuðið.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007




Fyrir réttu ári síðan fæddist hið óvenju yndislega stúlkubarn Hrafnhildur Kjartansdóttir á Landspítalanum í Reykjavík. Hún hefur verið mömmu sinni og pabba endalaus uppspretta ómældrar ánægju síðasta árið og herma fregnir að stoltari foreldrar séu vandfundnir heims um ból.
Frívaktin náði tali af Hrafnhildi eldsnemma í morgun. Aðspurð sagðist hún ætla að eyða afmælisdeginum í ró og næði og jafnvel að naga nefið á bangsanum sínum ef tími gæfist til.
Við óskum Hrafnhildi innilega til hamingju með stórafmælið og birtum hér tvær exclusive fréttamyndir af skvísunni. Sú fyrri var tekin í morgun og sú síðari þegar Hrafnhildur rakst á sjálfan Ringo á röltinu í miðborg Liverpool. Vel fór á með þeim tveimur enda um afburðafólk að ræða.

sunnudagur, febrúar 11, 2007


Og ég spyr enn: Er einhver hér í heimi sem hefur ekki beðið alla sína ævi eftir því að Curver og Kimono leiði saman hesta sína?

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Bubbi Byggir Robot

Eins og adur sagdi er margt funky i kyrhausnum. Megas er ekki allur thar sem hann er sedur, frekar en korfuboltamadurinn her ad nedan. Er ekki kominn timi a biomynd i fullri lengd med honum og Bubba i adalhlutverkum?

miðvikudagur, febrúar 07, 2007


Það er margt skrýtið í kýrhausnum. Ég var að lesa umfjöllun á heimasíðu ESPN um John Amaechi, fyrrverandi NBA leikmann, sem er að koma út úr skápnum um þessar mundir. Amaechi er fyrsti fyrrverandi NBA leikmaðurinn sem kemur opinberlega út úr skápnum og þykja þetta því nokkuð stórar fréttir vestanhafs. Allt í fína með það. En svo fór ég að skoða kommentin sem fólk getur skrifað á síðuna í tengslum við greinina og komst þá að því að orðið "gay" er ritskoðað af ESPN síðunni og breytt í "####". Hér er dæmi um komment sem einhver skrifaði:

"Racism in sports still rears its ugly head from time to time, so can you imagine the amount of abuse a #### player would be subject to?"

og annað dæmi:

"Maybe its time for a #### NBA player to come out as a role model for other young ####/lesbian atheletes."

Mér finnst magnað að síða sem slær þessari frétt upp á forsíðu (og í kjölfarið fylgdi grein sem hvatti ekki bara fyrrverandi heldur líka núverandi samkynhneigða NBA leikmenn til að drífa sig út úr skápnum hið snarasta) ritskoði síðan orðið "gay" í kommentakerfinu sínu. Einnig vekur athygli að orðið "lesbian" er ekki ritskoðað. Er þetta ekki eitthvað öfugsnúið? (pun intended).

föstudagur, febrúar 02, 2007


Jæja lömb, ég er á leiðinni á Liverpool - Everton. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að við munum sýna þeim bláu ýmislegt í dag, t.d. í tvo heimana og hvar Davíð keypti ölið. Það er næsta víst.

fimmtudagur, febrúar 01, 2007


Ætli það sé einhver í heiminum sem hefur ekki, á einhverjum tímapunkti í lífi sínu, viljað vera Roachford?

þriðjudagur, janúar 30, 2007


Ég á við svefnleysi að stríða. Næ einungis að sofa í u.þ.b. 2-3 tíma snemma á morgnana og dreymir þá einhverja outlandish sýru. Hvað get ég gert í þessu?

fimmtudagur, janúar 25, 2007


Ég var nýverið neyddur til að skipta um blogger og skemmst er frá því að segja að þessi nýi blogger er ömurlegur. Síðan er öll í hassi: grænir stafir á grænum bakgrunni, allar gömlu færslurnar mínar horfnar og myndirnar af ávöxtunum farnar líka. Mér er illa við að skipta alfarið um útlit á síðunni enda hef ég verið mjög ánægður með ávaxtalúkkið í þessi bráðum fimm ár sem Frívaktin hefur verið til. En er einhver Tóti Tölvukall þarna úti sem getur hjálpað mér að finna gömlu færslurnar?

Ég var á leiðinni heim úr ASDA súpermarkaðnum áðan í pissandi, grenjandi rigningu og hélt á u.þ.b. tíu níðþungum plastpokum, troðfullum af næringarríkum matvörum. Fyrir utan húsið sem ég bý í renndi þá upp mér bíll og tveir ungir menn sem í honum voru spurðu mig hvort ég vissi nokkuð hvað klukkan væri. Ég nennti alls ekki að leggja frá mér alla pokana og líta á klukkuna en að sama skapi vildi ég ekki vera dónalegur við þessa vingjarnlegu drengi. Ég lagði því allt draslið frá mér en í þann mund sem ég lyfti upp hendinni til að líta á úrið mitt sprungu strákarnir úr hlátri og brenndu í burtu. Ég hló ekki. En ég glotti inni í mér. Svona eftir á. Löngu eftir á.....

laugardagur, janúar 20, 2007



Eins og mér finnst cheddar ostur svakalega góður, og byrgði mig upp af cheddar í hvert sinn sem ég fór út fyrir landsteinana meðan ég bjó á Íslandi, er ég dálítið farinn að sakna gamla bragðlausa Gouda ostsins. Hann meltist svo vel.


Laddi er sextugur í dag. Um þessa íslensku goðsögn, sem hefur fylgt manni alla ævi á einhvern hátt, hef ég aðeins eitt að segja: menn eins og hann vaxa ekki á trjánum. Til hamingju með afmælið æringinn þinn!

þriðjudagur, janúar 16, 2007

Kiddi Vídjófluga

Já og svona fyrst ég er að þessu þá er ekki úr vegi að rifja upp gamla góða tíma með líkkistusmiðnum Kidda á Egilsstöðum. Ég man eftir þessu eins og það hafi gerst í gær.
Tom Cruise squirted

Já, þetta var ég að læra að gera - setja youtube dót beint á bloggið. Ég er alltaf soldið seinn að fatta svona nýjungar. Ég var að sjá þetta í fyrsta skipti núna, ég var reyndar í London í fyrra þegar þetta gerðist en sá þetta klipp aldrei þá. Eflaust hafa margir séð þetta áður en, eins og ég sagði, þá er ég stundum dáldið sló. Þetta er alveg sprenghlægilegt a.m.k. og ekkert að því að kíkja á þetta aftur.

mánudagur, janúar 15, 2007


Sly Stallone er staddur hér í Liverpool og skellti sér á völlinn um helgina. Rökhugsun hefur aldrei verið hans sterkasta hlið, og eins og sést á myndinni valdi karlgarmurinn vitlausan fótboltavöll. Ég get ekki sagt að ég sé ánægður með þessa hegðun sem hann sýnir á myndinni, en fyrirgefur maður Sly ekki hvað sem er? Ég hef aldrei farið dult með aðdáun mína á þessu heljarmenni og get varla beðið eftir frumsýningunni á Rocky Balboa næsta föstudag. Ég hugsa jafnvel að ég komi til með að skrifa gagnrýni um myndina hér á bloggið. Það verður þá fyrsta kvikmyndagagnrýni Frívaktarinnar, enda tilefnið ærið. Ég sá treilerinn í sjónvarpinu áðan og þ.á.m. þessa orðasennu milli Rocky og þeldökka unglingsins Mason, sem hann kemur líklega til með að berja í kæfu í hringnum:

Mason: "It's over for you."
Rocky: "Nuthin's over 'til it's over"
Mason (hlær kaldhæðnislega): "When's that line from? The Eighties?"
Rocky (glottir á veraldarvanan hátt): "Actually, I think that's from the seventies."

Ég býst við a.m.k. þremur Óskarsverðalaunatilnefningum, fyrir besta leik í aðalhlutverki, bestu tónlist og besta handrit.

laugardagur, janúar 13, 2007

Það er allt að verða vitlaust í Celebrity Big Brother. Leo Sayer hætti sjálfviljugur í þættinum vegna þess að allar nærbuxurnar hans voru orðnar skítugar. Leo vildi ekki þrífa naríurnar sínar fyrir framan annað fólk og rauk því út í fússi. Jermaine Jackson tók brotthvarf Leo svo nærri sér að hann fór að gráta.

Sjónvarp gerist ekki mikið betra en þetta.
Ég var að gera ansi merkilega uppgötvun rétt í þessu. Gamalt, goslaust pepsi drukkið beint úr plastflösku bragðast nákvæmlega eins og Soda-Stream með Cola bragði. Já, þessu taldi ég mig tilneyddan að segja einhverjum frá.

fimmtudagur, janúar 11, 2007


Ég heyri það útundan mér að allir séu brjálaðir yfir Duran Duran partýi hjá einhverjum auðkýfingaösnum. Afturhaldskommatittir, segi ég. En ég verð að setja stórt spurningamerki við þetta val á hljómsveit. Lá ekki beinast við að fá Ultravox í djobbið?

laugardagur, janúar 06, 2007



Það er nokkuð mergjað hvað Celebrity Big Brother verður áhugavert og spennandi sjónvarpsefni þegar maður ætti að vera að gera ritgerð. Ég á í stökustu vandræðum með að ákveða hvort ég ætti að halda með Jermaine Jackson (sem kallar sig reyndar Muhammad Abdul Aziz í dag) eða Leo Sayer. Eins og sést á myndunum eru þeir báðir hrottalega miklir töffarar. Ég held a.m.k. ekki með Danielle Lloyd, eiginkonu Teddy Sheringham, sem valsar um eins og hún eigi húsið, íklædd grænum flauelsíþróttagalla. Hún veit greinilega ekki að það er ekkert I í team.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

The Times They Are A-Changin' = Heimur Versnandi Fer

Síðasta vígið fallið? Andskotinn!!!

mánudagur, janúar 01, 2007



WTF?!? p. 1

Halló halló og gleðilegt ár elskurnar mínar.

Er ekki gráupplagt, svona á fyrsta degi ársins, að byrja með nýjan fastan lið á Frívaktinni? Jú, það finnst mér.

Þessi nýi liður ber nafnið WTF?!? og virkar í stuttu máli svona:

Eins og allir sem þekkja mig vita ef ég fremur treggáfaður. Ég er alltaf að lenda í því að heyra einhverja popptexta og raula þá með sjálfum mér, jafnvel í áraraðir, og uppgötva svo að ég skil hvorki upp né niður í því sem verið er að segja í textunum. Tilgangurinn með þessum nýja lið er sumsé sá að fá einhverskonar vísbendingu um það hvort ég sé í rauninni svona ofboðslega fattlaus eða hvort í þessum textum leynist stundum einhver bölvuð þvæla. Ég hallast að hinu fyrrnefnda en það verður gaman að fá úr þessu skorið og hvet ég lesendur eindregið til að láta til sín taka í kommentakerfinu:

P. 1 Live - All Over You

Eins og glöggir lesendur hafa vafalítið löngu áttað sig á er Live ein af verstu hljómsveitum mannkynssögunnar. Óglöggir lesendur sitja væntanlega heima hjá sér á Selfossi, berir að ofan og rasssveittir, og raula með "When the Dolphins Cry" meðan að fitan lekur úr hárinu á þeim og eyðileggur lyklaborðið á PC tölvunni þeirra, en gott og vel. Eftirfarandi textabrot er tekið úr upphafi lagsins "All Over You" með Live. Ég hef heyrt þetta lag milljón sinnum en aldrei spékúlerað sérstaklega í textanum fyrr en fyrir nokkrum dögum síðan, og ég verð að viðurkenna að ég skil ekkert um hvað maðurinn er að tala:

"Our love is like water
Pinned down and abused
For being strange"


Hmmmm? Eru til menn sem leggja það í vana sinn að misþyrma vatni fyrir að vera skrýtið? Eða er vatnið myndlíking fyrir sálarlíf ynnri manns höfundar? Eða er tíminn eins og vatnið, alltaf á sama stað en þó sífellt að ferðast? Mér er spurn. Gaman væri að heyra pælingar og tillögur lesenda.